09.05.1941
Efri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

106. mál, iðnlánasjóður

Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson) :

Mál þetta er borið fram af hv. iðnn. Nd., og upphaflega voru tvö frv., sem fylgdust að þar í hv. d. um efni þessa frv., annað um iðnlánasjóð og hitt um iðnlánasjóðsgjald. Var gert ráð fyrir því, að framlagið, sem ríkissjóður legði fram til iðnlánasjóðs, væri 40 þús. kr., í stað þess að gjaldið hefur verið 25 þús. kr. hingað til til sjóðsins. Eins var gert ráð fyrir, að fást mundi kringum 50 þús. kr. tekjur af hinu frv., iðnlánasjóðsgjaldsfrv., sem væri lagt í þann sama sjóð, og það þannig yrði með vöxtum kringum 100 þús. kr., sem árlega kæmi í iðnlánasjóð, ef bæði frv. yrðu að 1. En þessu var breytt í hv. Nd., þannig að í staðinn fyrir 40 þús. kr., sem voru í 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, var tillag ríkissjóðs hækkað upp í 65 þús. kr. En um leið virtist anda það kalt til hins frv., að það mundi ekki fá afgreiðslu þar í hv. d.

Því er lýst allrækilega í grg., hversu mikil þörf er á aukningu iðnlánasjóðs fyrir iðnaðinn, og ætla ég ekki að endurtaka það hér í þessari framsöguræðu minni. Þó að segja megi, að frá mínum bæjardyrum séð sé fullskammt gengið í því að veita iðnlánasjóði tekjur með þessu frv., eins og það er nú, þá er það mikil bót frá því, sem verið hefur undanfarið.

Þetta er sem sagt mikilvægasta breyt. frv. á núgildandi 1. En svo er önnur mikil breyt., sem var gerð á frv. í hv. Nd., um það, að iðnlánasjóði væri heimilt að gefa út handhafavaxtabréf, og kemur það vitanlega til með að vega töluvert upp á móti því, sem vantar í frv. af tekjum sjóðsins, sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Aðrar breyt. frá núgildandi 1., sem í frv. felast, eru einungis lítilfjörlegar. Í 3. gr. er lagt til, að það skuli vera sett þriggja manna n., sem fjalli um lánbeiðnir úr sjóðnum. Áður hafði það verið Landssamband iðnaðarmanna, sem hafði skipað þá n. En nú tilnefnir sá félagsskapur aðeins einn mann í n. og Félag ísl. iðnrekenda annan manninn, og er það ekki nema eðlilegur hlutur, þar sem lánin falla líka til iðju um leið og þau falla til iðnaðar. Þriðja manninn skipar ráðh.

4. gr. fjallar um það að fella úr 3. gr. 1. orðið „smærri“, þannig að yfirleitt koma öll iðnfyrirtæki til greina, hvort sem þau eru smærri eða stærri, um að fá lán úr sjóðnum, ef þau þykja hæf til lána.

5. gr. fjallar um það, að það skuli koma fram beiðni frá hlutaðeigandi fyrirtæki um lán úr sjóðnum, þar sem áður hafði staðið í 1., að ráðh. auglýsti eftir beiðnum. Það fyrirkomulag hafði verið mjög þunglamalegt, þannig að menn höfðu stundum ekki fengið lánin, þó að þeir beiddu um þau fyrri part árs, fyrr en síðast á árinu, sem hafði orðið mjög til baga.

6. gr. er aðeins árétting frá því, sem er í núgildandi l. Í l. er sagt, að ekki megi veita hærra lán úr sjóðnum en 5 þús. kr., en þá voru tekjurnar 25 þús. kr. Nú er í frv. skýrt tekið fram, að lán megi nema 1/5 af nettótekjum sjóðsins. En sjóðnum er ætlað að bera sig sjálfur, og þess vegna verður einhver kostnaður við rekstur hans, og því er þarna tekið fram, að þetta sé af nettótekjum sjóðsins.

Hinar gr. eru að mestu leyti lagfæringar til samræmis, sem leiðir af þeim breyt., sem hafa verið nefndar.

Iðnn. hefur haft þetta mál til meðferðar á fundi sínum, eins og nál. ber með sér, og leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.