06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

91. mál, tannlæknakennsla við læknadeild háskólans

Helgi Jónasson:

Það mun nú kominn tími til þess að reynt sé að ráða bót á tannsjúkdómum með fjölgun tannlækna, og er það okkur til háborinnar skammar, hve okkur er ábótavant í þessu efni. Það kann að vera rótgóin venja hjá almenningi að reyna ekki að bæta úr þessu böli með tannskemmdirnar, en svo mun orsökin líka vera sú, að erfitt er að ná til tannlækna. Þeir eru miklu færri að tiltölu en aðrir sérlæknar og allt of fáir, samanborið við fólksfjöldann. Þetta frv. mundi ráða bót á þessu, og menn mundu eiga hægara með að ná til tannlæknis, a. m. k. í kaupstöðum landsins.

Þetta frv. hefur tvenns konar markmið. Í fyrsta lagi, að mönnum gangi betur að ná til tannlækna og að tannlæknar eigi að verða aðstoðarmenn héraðslækna. Hið síðar nefnda tel ég mjög vafasamt atriði. Vitanlega er full þörf á slíkum aðstoðarlæknum, en ég er hræddur um, að það fari eins og með aðra lækna, að þeir fáist ekki nema í kaupstaðina. Við vitum, að þó að almennir læknar séu of margir í kaupstöðunum, er ókleift að fá þá út um, sveitir landsins. Er ekki lengur vansalaust fyrir Alþ. að láta hjá líða að ráða bót á þessu. Það kann að fara svo, þegar fram í sækir og tannlæknarnir eru orðnir of margir, að einhverjir fáist út í sveitirnar, en fyrst um sinn munu kaupstaðirnir gleypa alla tannlækna, og þar er þeirra án efa full þörf. En spursmálið, sem nú er mest aðkallandi fyrir sveitirnar, er það, hvernig þær eigi að fá læknishjálp, þegar héraðslæknirinn getur ekki gegnt embætti sínu vegna veikinda eða sumarleyfis, sem allir fá nú notið nema læknar. Ég veit um einn lækni, sem hefur gegnt störfum í sínu héraði í 20 ár og hefur aldrei farið út fyrir umdæmi sitt, bæði vegna fátæktar og vegna erfiðleika á að fá lækni í sinn stað á meðan. Slíkt ástand getur ekki gengið til lengdar, að héruðin verði að vera læknislaus, ef héraðslæknirinn forfallast. — Þetta voru nú almennar hugleiðingar um þetta mál.

Þetta frv. mun ráða mikla bót á tannlæknafæðinni, og þó að það komi ekki að fullu gagni nema til að byrja með, á það fullan rétt á að verða samþ. Kostnaðaráætlunina tel ég mjög hóflega, og þar sem frv. telur flest upp, sem nota þarf, mun það varla fara fram úr áætlun í framkvæmdinni. Ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þetta frv. og afgreiði það sem fyrst.