30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

108. mál, bæjarstjórn á Akranesi

Frsm:

(Bergur Jónsson) : Hér er um það að ræða að veita kauptúninu Akranesi kaupstaðarréttindi og setja lög um bæjarstjórn þar.

Allshn. hefur farið gaumgæfilega í gegnum frv., og er það yfirleitt í fullkomnu samræmi við þá löggjöf, sem á þessu sviði gildir. Hún hefur gert hér þrjár smábreyt. Fyrsta breyt. er aðeins orðabreyt., að fyrir „stjórnarráðið“ komi: ráðherra. Það er orðin venja nú í lögum að hafa frekar orðið ráðherra. Önnur breyt. er sú að telja meðal tekna bæjarins fyrst og fremst útsvör, af því að þau eru yfirleitt aðaltekjurnar. Þriðja breyt. er við síðustu málsgr. 14. gr. Þar stendur : „Bæjarstjóri ávísar útgjöldum, og skulu þau áður samþ. af nefnd þeirri innan bæjarstjórnar, er þau heyra undir“. Þetta virðist vera þungt í vöfum og er vafalaust ekki framkvæmt á þann hátt. Þess vegna hefur n. tekið upp ákvæði, sem er í samræmi við bæjarstjórnarl. á Akureyri, að bæjarstjórn ávísi útgjöldum samkvæmt reglum, sem um það eru settar í samþykktinni um stjórn málefna kaupstaðarins.

Að þessu loknu leggur n. til, að frv. verði samþ., og vísar til grg. frv., sem segir, að það sé almennur vilji á Akranesi, að bærinn fái kaupstaðarréttindi, og Akranes er orðið svo fjölmennt, að það er komið fram úr tveimur kaupstöðum landsins hvað íbúatölu snertir.