06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

83. mál, landskiptalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Hvað snertir aths. hv. 8. landsk., sem eiga í raun og veru aðeins við 3. tölul. 1, gr., þá er ég ekki sammála um, að ekki geti komið til greina skipti, sem koma til gagns fyrir þann aðilann, sem telur sig vanhaldinn af skiptunum, en veldi þó ekki hinum aðilum neins tjóns. Við getum hugsað okkur, að land eins ábúanda í margbýli liggi þannig, að mjög sé erfitt að nytja landið, en hins vegar getur það legið miklu betur við fyrir mótbýlismenn hans, þá geta skiptin komið að gagni fyrir báða. Mörg slík tilfelli geta komið til greina, og þetta er sett inn með tilliti til þess. Um þetta hafa áður gilt ýmsar gamlar venjur, sem hafa gert það að verkum, að skiptin hafa verið svo ruglingsleg og klaufaleg á ýmsan hátt, að þar við gat ekki lengur setið. Séu landamerki krókótt, er hægt að rétta þau af með landskiptum án þess að þau komi sér illa fyrir hvorugan aðilann, og frá mínu sjónarmiði getur þetta vel staðizt. Ég vissi ekki vel, hvort hv. 8. landsk. vildi fella niður 3. tölul. 1. gr. Þeir, sem undirbjuggu frv., töldu rétt að hafa þetta ákvæði, og landbn. fellst einnig á það. N. lítur svo á, að bæta megi úr ágöllum eldri landskiptalaga með þessu frv.