12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

123. mál, læknisvitjanasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég veit ekki, hvað hv. 2. landsk. hefur heyrt mig segja. Ég minntist ekki einu orði á læknishéruð í Norður-Múlasýslu, heldur benti ég á það, að sums staðar á landinu, eins og t. d. í Stykkishólmslæknishéraði, er nú læknisvitjanastyrkurinn 950 kr. í þremur hreppum, og þegar allir hrepparnir ættu von á að geta fengið mest eitt þús. kr., þá teldi ég vafa á því, að þessir 3 hreppar vildu sleppa þessum 950 kr. til þess að láta 1000 kr. koma á til þeirra allra. Í Ólafsvíkurlæknishéraði eru 800 kr. ætlaðar til sjúkravitjanastyrks fyrir tvo hreppa, og þegar ætti svo að fara veita úr ríkissjóði 1000 kr., sem skipta ætti á milli alls læknishéraðsins, þá er ég hræddur um, að þeim þætti það nokkuð lítið. En Norður-Múlasýsla kemur þessu máli ekkert við. Enn fremur stendur í frv., að styrkurinn eigi ekki að falla í hlut þess hrepps, þar sem læknir er búsettur. Nú liggur fyrir á fjárl., og þingið hefur litið svo á að undanförnu, að það eigi stundum að veita læknisvitjanastyrk í hreppa, þar sem læknir er búsettur, og svo er t. d. um Sauðaneshrepp í Norður-Þingeyjarsýslu, sem ætlaður er 200 kr. læknisvitjanastyrkur, og Presthólahreppur í sömu sýslu nýtur einnig slíks styrks, sem er 200 kr. Og að viðkomandi héruð vildu leggja fram fé til þess að leggja þetta niður til þess að fá það fé, sem frv. felur í sér, tel ég mjög vafasamt.

Í Norður-Múlasýslu hefur engum dottið í hug að fara fram á að fá læknisvitjanastyrk til hreppa, sem eru langt frá lækni, og hafa þeir þó ekki betri aðstöðu til læknisvitjana heldur en þeir menn í Ólafsvík, sem fá læknisvitjanastyrk.

Ég er viss um það, að það verður aldrei stofnaður læknisvitjanasjóður kringum Þórshöfn, þar sem læknisvitjanastyrkurinn er nú 200 kr. Og þá er komið út í sömu vitleysuna að hafa á sumum stöðum styrk þennan til einstakra hreppa eftir fjárl., en hafa í sumum héruðum læknisvitjanasjóði.