05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Þessar umr., sem fram hafa farið, hafa ekki gefið fjvn. mörg tilefni til andsvara. Þau fáu atriði, sem fram komu, vildi ég þó aðeins minnast á.

Ég vil byrja á því að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. fjmrh. lét yfirleitt falla vinsamleg orð til n. í þá átt, að hún hefði farið fremur gætilega að í till. sínum. Það hefði verið eðlilegt, að bæði hann og aðrir hv. þm. byggjust við því, að n. mundi gera stórkostlegar hækkanir, þar sem dýrtíðin hefur stóraukizt og fengið viðurkenningu á sem sagt öllum sviðum. Það var þannig búið að gefa fjvn. fulla bendingu um það, að hún ætti í raun og veru að ganga út frá því, að væntanleg fjárlög hækkuðu í nokkuð svipuðu hlutfalli og greiðslur hafa hækkað á yfirstandandi ári. Nefndin gerði grein fyrir þessu í nál. og enn fremur gerði ég grein fyrir því í ræðu minni, að hyggilegra væri, að þingið hefði þessi tvö atriði til meðferðar jöfnum höndum, sem sé þau að heimila ríkisstj. að draga úr greiðslum, ef tekjur ríkissjóðs brygðust að verulegu leyti, og hins vegar að bæta við framkvæmdir þær, sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum, þegar sæist fyrir, hvernig dýrtíðin væri. Ég skal viðurkenna það, að hæstv. fjmrh. benti á, að til væru lög um jöfnunarsjóð ríkissjóðs, en þrátt fyrir þau ákvæði mun ríkisstj. hafa nokkuð rúmar hendur um það að greiða sanngjarnar greiðslur, ef fé er til. Um það má náttúrlega lengi deila, hvað er sanngjarnt og hvað ósanngjarnt, og það er alveg sérstakt viðhorf, sem þjóðstjórn hefur í þessu efni. Það er í raun og veru allt önnur aðstaða en hjá flokksstjórn, og lögin um jöfnunarsjóð eru fyrst og fremst miðuð við ríkisstj., sem er studd af einum sérstökum flokki í þinginu. Þjóðstjórn getur leyft sér ýmislegt, sem flokks. stjórn getur ekki, enda er beinlínis ætlazt til þess, því þjóðstjórn er til og studd vegna þess, að tímarnir eru erfiðir, og með því er ætlazt til, að ríkisstj. verði á þann hátt sterkari.

Hæstv. ráðh. minntist hér aðeins á örfáa liði. Ég get svarað honum, hvað vakti fyrir n. viðvíkjandi verzlunarskólunum. Það er alveg rétt, að það var samþ. á síðasta þingi till. um að skipta styrknum eftir höfðatölureglunni, en margir hv. þm. munu frekar hafa litið á það sem gamansemi heldur en það ætti svona djúpar rætur. Nefndin leggur til, að fjárveitingin verði á sama grundvelli og áður var, en gerir það ekki að neinu kappsmáli.

Það er rétt athugað hjá hæstv. ráðh., að þessi hækkun á listamannastyrknum er ekki miðuð við dýrtíðina, heldur við það, að úthlutunin geti orðið dálítið rýmri við þessa hækkun. Viðvíkjandi þeim einstaklingum, sem n. leggur til, að felldir verði niður af 15. gr., þá er það rétt, að manni getur virzt það óviðkunnanlegt, að menn, sem eru í stjórn menntamálaráðs, úthluti sér styrkjum, en því hefur einmitt verið slegið föstu, að beinlínis væri ætlazt til, að þessum mönnum verði greiddar þessar fjárhæðir af því fé, sem menntamálaráð hefur yfir að ráða, svo að það gæti ekki á nokkurn hátt verið móðgandi fyrir þessa virðulegu menn.

Ég minnist ekki, að hæstv. ráðh. hafi gefið tilefni til frekari athugasemda nema viðvíkjandi því, sem hann sagði síðast. Hann taldi vafasamt, að niðurstöðurnar væru réttar samkvæmt ræðu minni áðan og nál. því, sem fyrir liggur. Þetta er rétt athugað, en mér láðist að geta þess, að í nál. er hrapalleg villa, sem stafar af misritun. Þar á að standa: Greiðslujöfnuður óhagstæður um 1568024 kr.

Enn fremur vil ég benda á viðvíkjandi brtt. á þskj. 274, þar sem n. leggur til, að framlagið til brúargerða hækki úr 40 þús. upp í 100 þús., að þessi till. er á sérstöku þskj. og mér hefur láðst að breyta niðurstöðu nál. í samræmi við þetta, og ekki eru heldur tekin með þau útgjöld, sem sameinaðar samgöngumálanefndir gera ráð fyrir í sínu nál.

Viðvíkjandi því, sem einstakir hv. þm. hafa tekið hér fram, vildi ég fyrst minnast á það, sem hv. fyrri þm. N.-M. sagði. Það, sem hann gerði að umtalsefni, voru nokkrar smáupphæðir, sem eru í heild í fjárlögum, en eiga að deilast niður á ýmsa liði eða einstakar persónur. Ég get vel viðurkennt, að það er rétt að taka fram, hvað fyrir fjvn. vakir, svo að ekki leiki vafi á, en ég vil hins vegar leggja áherzlu á, og fjvn. mun vera sammála um það eins og nú er —, að það fari betur að veita ýmsar upphæðir í einu lagi, án þess að því sé beinlínis skipt í sjálfum fjárlögunum. Má þar nefna smástyrki til einstakra manna, t. d. kennara, sem eru hættir að vinna, pósta og símastarfsmanna og ýmislegt þess konar, sem eru smáatriði og auðvelt að geta um það í framsögu, hvað fyrir n. vakir. Um verklegar framkvæmdir er það langoftast gert að jafna. fjárveitingum niður eftir sjónarmiði n., — þó er að nokkru leyti undantekning með brúargerðir. Ég minnist ekki, síðan ég fór að vinna að þessum málum, að það sé sundurliðað í fjárl., heldur komi það fram í nál. eða í framsögu, hvernig n. ætlast til, að fénu verði varið. Það getur vel verið, að þetta hafi breytzt í seinni tíð, og þá aðallega vegna þess, að féð, sem veitt hefur verið til brúargerða, hefur verið svo takmarkað, að n. hefur tæplega þótt taka því að skipta því niður, því það hefur verið svo langt fyrir neðan þær óskir og kröfur, sem gerðar hafa verið í þessu efni. Ef þessi brtt. yrði samþ., þá er vel athugandi, hvaða brýr það eru, sem fyrst koma til greina. Ég veit líka, að vegamálastjóri vildi, að fjvn. legði eitthvað til þeirra mála. Ég get vel fallizt á það, að það sé nokkuð annað með smástyrki, sem ætlaðir eru til einstakra manna, heldur en fjárhæðir til verklegra framkvæmda, sem einhverju verulegu nema.

Það kom fram í ræðu hv. 1. landsk. í sambandi við vinnuhælið á Litla-Hrauni, að þar væri léleg umgengni. Ég er nú dálítið kunnugur þar og hef ekki orðið var við þetta. Þó skal ég játa, að ég hef sjaldan komið inn í húsið, en ég þekki forstjórann vel og veit, að hann er myndarmaður, og þykir mér það dálítið einkennileg aðdróttun, þó ég geti hins vegar ekki tekið af skarið um það, hvort þetta er rétt. Ég hygg, ef þessi ásökun er borin á þessa sérstöku stofnun, að þá megi margir gæta að sér, hvort þrifnaði sé ekki ábótavant, og vil ég sízt gera lítið úr því, að lögð sé áherzla á, að á opinberum stöðum sé gætt fyllsta þrifnaðar. Ég mun styðja allar réttmætar till., sem fram koma um það, en efast um, að aðdróttunin í þessu tilfelli sé réttmæt.

Um þær brtt., sem hér liggja fyrir, tel ég, að þær, sem snerta vegina, séu ekki með öllu sanngjarnar. Fjvn. hefur hækkað verulega tillög til vega. Til þess að mæta óskum hv. þm. Mýr. hefur tillag til Álftanesvegar verið hækkað úr 10 þús. upp í 12 þús. og til Hraunhreppsvegar úr 3½ þús. upp í 5 þús., en hann vill ekki sætta sig við þetta, heldur kemur hann með brtt., þar sem hann mun fara fram á þær ýtrustu hækkanir samkv. sínum óskum. Þetta fékk enginn hv. þm., og var þess vegna ekki að vænta, að n. gerði honum hærra undir höfði en öðrum. Ég vildi mælast til þess, að hann tæki þessar till. sínar aftur til 3. umr., og mætti þá athuga,.hvort hægt væri að mæta óskum hans, en sem frsm. vil ég ekki mæla með því, að till. verði samþ.

Hv. þm. V.-Sk. hefur borið fram brtt. um hækkun til vega þar. N. er kunnugt um það, að í frv. voru teknar upp þær fjárhæðir, sem lágu a. m. k. mjög nærri till. vegamálastjóra. Það er sama um þessar till., að ég hefði viljað óska, að hv. þm. vildi taka þessar till. aftur, því að ég sé mér ekki fært að mæla með því, að þær verði samþ.

Um aðrar brtt. mun ég ekki tala. Ég get viðurkennt, að það eru hér margar till. frá hv. 1. landsk. og hv. 4. landsk., sem sjálfsagt eiga fullan rétt á sér. Flestu því, sem þar eru gerðar till. um, mun vera gert ráð fyrir í fjárlagafrv., og ég geri ráð fyrir, að Alþingi sjái sér ekki fært að verða við óskum þeirra um þær miklu fjárhæðir, sem þeir leggja til í sínum brtt. Ég mun hins vegar ekki skipta mér af því, hvort þeir vilja geyma till. sínar til 3. umr. eða láta fara fram atkvgr. um þær nú.

Ég minnist ekki, að ég hafi fengið tilefni til að svara fleiru, sem fram hefur komið. Það var allt mjög hógvært og heldur veigalítið, og bendir það til þess, að n. hafi starfað sómasamlega, sem ég vil og vænta, að hafi verið, og það gleður mig sannarlega, að hv. þm. hafa ekki gert fleiri aths. né komið með fleiri brtt. en enn eru komnar.

Ég geri ráð fyrir því, að einhverjar brtt. komi við 3. umr., en það verður líka tími á milli umr. að athuga þá nánar óskir manna.