08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Ingvar Pálmason:

Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari gildir um þá breyt., sem gerð var á frv. í Nd., þar sem inn í það var bætt, að 1. gr. 1. um síldarverksmiðjur ríkisins skuli falla niður.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er það rétt, sem hv. frsm. tók fram, að þetta hefur verið „princip“-atriði hjá þeim flokkum, sem frá upphafi stóðu með því, að ríkið byggði síldarverksmiðjur. Fyrir þessu hafa verið færð rök, ekki einu sinni, heldur margoft, og sé ég ekki ástæðu til að fara að endurtaka þau nú. Ég vil þó aðeins benda á, að þar sem síldarverksmiðjur ríkisins hafa með atbeina ríkisvaldsins orðið til þess að koma síldarútveginum úr því ófremdarástandi, sem hann var í áður en þær voru reistar, þá er enn í dag sama ástæðan fyrir þessu ákvæði, sem sé að ef það er fellt niður, þá sé engin trygging lengur fyrir því, að hver og einn geti ekki í skjóli þess, að verksmiðjur ríkisins hafa getað komið málinu á þennan veg, hlaupið til og byggt síldarverksmiðjur, til þess að koma svo á ríkisverksmiðju, áður en langt líður og þær kannske reistar undir þeim kringumstæðum, að þær hafi lítil eða engin skilyrði til þess að bera sig. Ég hygg, að allt frá því fyrsta, að þetta mál um stofnun síldarverksmiðja ríkisins kom á dagskrá, hafi það verið hreint stefnumál Framsfl., að það heyrði undir valdsvið stj. að ákveða, hver fengi leyfi til þess að byggja síldarverksmiðjur, og get ég ekki séð, að af því hafi hlotizt tjón hingað til, heldur hygg ég, að reynslan hafi sýnt það gagnstæða.

Ég lít svo á, að verði þessi breyt. á ger, þá sé engin ástæða fyrir ríkisvaldið til að halda þessum verksmiðjum lengur undir sinni sérstöku vernd, þá er réttast að láta allt fara í sama farið og í gamla daga, og ég er það gamall, að ég er ekki í neinum vafa um, hvernig fer um síldarútgerðina, þegar að því kemur. Ég hygg, að við höfum fengið það mikla reynslu af því, að sú fjármálaafkoma, sem nú er þó í landinu, byggist ekki hvað minnst á því, að það varð ofan á, að síldarverksmiðjur ríkisins voru stofnaðar og reknar á þann hátt, sem verið hefur.

Ég hef ekki séð ástæðu til að bera fram brtt., en ég hef lýst minni afstöðu og mun greiða atkv. á móti 1. gr., en ég sé ekki neitt á móti því, að 2. gr. verði samþ., því að ég geng inn á, að þannig sé ástatt á Raufarhöfn, að rétt sé að rýmka nokkuð um möguleika hreppsn. til þess að nota þessa heimild. Auðvitað er það, að meira en ½% getur sveitarfélagið ekki lagt á, en það getur ekki notað heimildina að hálfu leyti eins og nú er. Ég er því með þeirri breyt. á verksmiðjul. Ég sé ekki, að hún sé þannig, að hún geti á neinn hátt skert afkomumöguleika verksmiðjunnar eða unnið nokkurt mein afkomumöguleikum þeirra, sem við verksmiðjuna skipta.

Ég get svo látið útrætt um þetta, því að málið liggur hreint fyrir. Ég veit það ekki, en ég hygg, að það sé of snemmt fyrir hv. þm. Vestm. að gleðjast yfir þessari breyt. Það getur vel verið, að málið gangi fram, en ég býst við, að þessi breyt. færi síldarútveginum enga gæfu, ef hún nær fram að ganga.