08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki fara að ræða mikið þetta atriði, sem hefur komizt. inn í þetta frv., því að það er aðeins einn hlekkur í langri keðju.

Ég hef alltaf verið, eins og er stefna míns flokks, með því, að atvinnureksturinn ætti að vera sem mest í höndum einstaklinga, og ég hef því frá upphafi líka álitið, að síldarverksmiðjurnar ættu eins og annar atvinnurekstur að vera í höndum einstaklinga, þó að það væri á sínum tíma augljóst, að þeir hefðu tæplega bolmagn, nema þá með styrkjum eða lánum frá því opinbera, til þess að koma á fót síldarverksmiðjum.

Á sínum tíma var um það talað, að þessum verksmiðjum yrði komið upp sem einhvers konar samvinnufélagsskap framleiðenda hráefnanna, en það þótti þá sem einhver síldarbrækjulykt mundi koma, ef farið væri að hleypa síldarútgerð inn í þennan félagsskap. En eftir að ríkið hefur tekið þetta að sér, þá er mikið til í því, sem sumir segja, að ástæða sé til, að ríkið ráði nokkru um, hvort fleiri setja upp sams konar fyrirtæki, ekki sízt vegna þess, að þessi atvinnurekstur, sem hér er um að ræða, er meðal þeirra fyrirtækja eða starfsgreina í landinu, sem verður fyrir ákaflega miklum áhrifum af bjartsýni og svartsýni í svipinn. Það ganga þær öldur yfir, að allir vilja eiga verksmiðjur, og svo má einnig búast við, að tímar komi; sem enginn vill eiga þær, og gæti því verið ástæða til, að þar væri eitthvert drifakkeri, sem væri fyrir ofan og utan þær öldur. Ég vil samt ekki greiða atkv. á móti þessari 1. gr., því að ég hef viljað, að þetta væri frjálst, því að ég get ekki séð, eins og hv. 2. þm. S.M, að síldin yfirleitt sem atvinnuvegur þurfi að fara niður í sama ófremdarástandið og áður, þó að þetta ákvæði sé fellt niður.

Það var eitt, sem ég vildi vekja athygli hv. n. á, en það er . það, að síðan þetta frv. var lagt fram, hafa verið samþ. 1. um stríðsgróðaskatt, og hluti af honum á að renna til sveitarfélaga, þar sem fyrirtæki, sem stríðsgróðann fá, eru útsvarsskyld. Ég gæti trúað, að þetta gæti haft nokkur áhrif á þörf bæjar- og sveitarfélaga, þar sem verksmiðjur eru, svo að það væri ekki þörf á að rýmka um þetta ákvæði eða jafnvel að láta það haldast lengur. Ég vil aðeins skjóta því til n., hvort henni finnist ekki ástæða til að athuga þetta tvennt hvort í sambandi við annað, stríðsgróðaskattinn og þennan skatt, sem hér er um að ræða.

Annars þykir mér skrítið orðalag á þessu frv. Hvers vegna var ekki bara sagt, að í staðinn fyrir 25% skyldu koma 50%? Í stað þess er sagt: „Þó má gjald þetta ekki nema hærri upphæð en sem svarar samanlögðum útsvörum annarra gjaldenda í viðkomandi bæjar- eða sveitarfélagi það ár“. Hvers vegna er þetta orðalag haft? Er í þessu fólgin einhver gildra? Er þarna verið að gera einhverja tilraun til að fara í kringum Alþingi? Það er ef til vill hægt að skilja þetta þannig, að fyrst megi jafna niður fullri útsvarsupphæð og síðan megi taka jafnháa upphæð á móti af síldarverksmiðjum ríkisins, sem kynnu að vera reknar á sama stað. Þetta vil ég láta athuga, að þessi 25% af útsvarsupphæðinni megi hækka upp í helming. En ég veit ekki nema bæjar- eða sveitarfélag gæti notað sér þetta og lagt fyrst á fulla upphæð og lagt síðan jafnháa upphæð á verksmiðjurnar og notað hana til einhverra framkvæmda, til að greiða skuldir eða einhvers þess háttar. En þar sem það mun nú ekki vera meiningin, tel ég rétt, að gr. verði orðuð þannig, að ekki orki tvímælis.