08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Ég hefði persónulega haft tilhneigingu til að taka til greina tilmæli hv. 1. þm. Reykv. að athuga þetta atriði með stríðsgróðaskattinn sem viðaukatekjugrein til sveitarfélaga og bæjarfélaga á milli umræðna. Ég hef satt að segja ekki getað kynnt mér vilja minna samnm. í því, en geri ráð fyrir, að samkomulag geti orðið um það.

Að því er snertir orðalag frv., hef ég það sama að segja. A. m. k. get ég lýst yfir því fyrir hönd n., að þarna er ekki viljandi stefnt inn á neinar krókaleiðir, til þess að menn geti misnotað þetta ákvæði. Ég skil það þannig, að það sé alls ekki leyfilegt samkv. þessu að jafna niður til fulls útsvörum og taka svo sem aukabita tillög eða skatt frá verksmiðjunum, heldur eigi tillagið að verða til þess að létta útsvarið í því hlutfalli, sem ákveðið er í frv.

Út af orðum hv. 2. landsk., að verið hafi einhver „sigurhljómur“ í rödd minni í framsögunni, þá held ég, að ég verði að telja, að þetta sé misheyrn.

Hv. þm. S.-Þ. vil ég benda á það, að framsaga mín var algerlega laus við nokkurn meting og uppgerð milli flokka í þessu máli. Hitt sagði ég og vík ekki frá því, að ég persónulega yrði feginn því, að þetta ákvæði hyrfi úr 1., einkum og sér í lagi vegna þess, að ég held það sé hægt að benda á dæmi um það, að ákvæðið hafi orðið til að auka tilfinnanlega árekstra. Og ég held mér sé líka óhætt að segja, að það hafi líka orðið til tjóns. Við munum allir þau átök, sem hv. þm. S.-Þ. minntist á, þegar Kveldúlfur var í þann veginn að koma upp Hjalteyrarverksmiðjunni. Hefði meiri hl. þingsins ekki tekið í taumana, mundi sá ráðherra, sem átti hlut að máli, sennilega — og ég held vissulega —, hafa orðið til þess að tefja algerlega framkvæmdir á því fyrirtæki um ófyrirsjáanlegan tíma. En reynslan síðan hefur sýnt, að af slíku hefði hlotizt mikið tjón. Ég tel það til gildis þeim flokki, sem að því stóð á sínum tíma, að koma í veg fyrir, að þetta mál væri misbrúkað. Síðan hefur komið annað árekstrarmál, þegar Siglufjarðarbær vildi stækka sína verksmiðju. Og ég verð að segja, að ég tel illa farið, að hann gat ekki notið þeirrar aðstöðu, sem hann hafði. Ég segi þetta sem mína skoðun blátt áfram. Og þegar ég lít á þetta dæmi, þá tel ég, að þetta umrædda ákvæði hafi orðið hálfgerð hneykslunarhella, og það er þess vegna, sem ég vil gjarnan, að það sé fjarlægt.

Hv. þm. S.-Þ. minnist á þessar litlu verksmiðjur, sem hefur verið komið upp af áhugasömum mönnum, en síðan hafa lent í vandræðum. Hann taldi ekki óeðlilegt, ef allt væri frjálst, að menn rykju í sams konar fyrirtæki, til þess síðan að mæta sams konar vonbrigðum og örðugleikum. í þessu sambandi vil ég nú benda á það, að þessar litlu verksmiðjur, sem byggðar hafa verið af áhugasömum mönnum af góðum vilja, hafa reyndar mylnustein um háls, eða þeir, sem að þeim stóðu, og bæirnir, sem þær voru byggðar í. Þær voru byggðar á þeim tíma, þegar ríkisvaldið hafði fullan hemil á í þessu máli, auðvitað að undanskildum Sólbakka, sem er gamalt fyrirtæki. Þetta var sem sagt á þeim tíma, sem ríkisvaldið hafði aðstöðu til þess að sporna við óviturlegum framkvæmdum á þessu sviði. Og aðstaða og vald ríkisvaldsins gat nú ekki forðað því, að verksmiðjurnar lentu svo sem segir í ræðu hv. þm. S.-Þ.

Í þessu sambandi skal ég líka minna á, að það var um tíma uppi allsterk hreyfing, einmitt um það leyti sem mest stóð til um Hjalteyrarverksmiðjuna, í þá átt að hafa verksmiðjurnar margar og smáar. Það hefur sýnt sig síðan, að þessi stefna er ekki rétt. Það að hafa verksmiðjurnar dreifðar og smáar, er það, sem hefur komið þessum fyrirtækjum í koll, eins og hv. þm. S.-Þ. minntist á. Svo er ekki því að neita, að verksmiðjan á Seyðisfirði t. d. var ekki byggð með forsjálni eða nægum áhuga, því að það var gefinn hlutur, að óheppilegt var að hafa síldarverksmiðju þar: Ég freistast til að segja, að hún hafi frekar verið pólitískt númer. Og þegar þannig er staðið að atvinnufyrirtækjum, þá er alltaf von til, að eitthvað kunni að fara á annan veg en þann, sem hinir bjartsýnustu menn óska eftir. Því ber ekki að neita, að reynslan hefur varpað miklu ljósi á undanförnum árum yfir það, hvernig bezt sé að standa að þessum síldarverksmiðjum. Ríkisvaldið hefur þar látið landsmönnum í té dýrmætan arf, þar sem eru þessi fyrirtæki og sú reynsla, sem hefur skapazt kringum þau. Og ég vil vona, að sú reynsla verði til þess að forða mönnum frá í framtíðinni að gera sömu glappaskotin, sem hv. þm. S.-Þ. minntist á. Það er sýnt, að þessi fyrirtæki verða að vera vel grundvölluð og staðirnir svo góðir, að verksmiðjurnar geti að öllum eðlilegum hætti haft nægilegt hráefni. Og með allri virðingu fyrir forsjón að aðgerðum hins opinbera í þessu efni, vil ég nú líka bera það traust til þeirra manna, sem úr einstaklinga hóp kynnu í framtíðinni að vilja leggja út í svipuð fyrirtæki af þessu tagi, að þeir hafi þá forsjá fyrir sér, að ekki þurfi að stafa nein hætta af því, þótt þessi hemill sé numinn í burt. Það eru sem sé átakanleg dæmi þess, að þrátt fyrir þennan hemil hefur verið tekið skakkt á málum, og hefur hann enda orðið nokkurs konar ásteytingarsteinn. Hitt á svo eftir að sýna sig, ef lögfest verður að hafa þetta frjálst í framtíðinni, hvort frelsið verður í þessu efni hættulegra heldur en þau höft, sem enn eru eftir og hér er lagt til að afnema.