13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Ingvar Pálmason:

Við 1. umr. þessa máls gerði hv. 1. Þm. Reykv. athugasemdir við 1. gr. frv., sem eru þannig lagaðar, að hann taldi ákvæði hennar, eins og þau væru, einhvers konar fallgryfjur, sem mætti nota þannig, að verksmiðjugjaldið yrði ekki tekið með í útsvarinu. Ég skildi hann a. m. k. þannig. Í morgun tók meiri hl. n. málið svo til athugunar með þennan skilning hv. 1. þm. Reykv. fyrir augum, að ákvæði 1. gr. gætu verið tvíræð. Til þess að taka af allan vafa höfum við flutt hér brtt. um, að aftan við gr. bætist: „Skal verksmiðjugjaldið áætlað í fjárhagsáætluninni áður en útsvör eru ákveðin“. Mér skilst, að ef þetta verður samþ., þá sé það tvímælalaust, að ekki sé þarna um neina fallgryfju að ræða. Það bregður hins vegar svo einkennilega við, að þessi till. fullnægir ekki hv. þm. Vestm. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég skil þetta ekki hjá hv. þm. Og til þess að sýna alla viðleitni til samkomulags, þá vil ég ganga inn á að taka málið út af dagskrá og gefa meðnm. mínum tækifæri til að reyna að forma brtt., sem gæti fullnægt hv. 1. þm. Reykv., því ég verð að álíta, að þaðan sé þetta sprottið, því áður hreyfði hv. þm. Vestm. engum andmælum gegn þessu. Ég álít, að málinu sé ekki stefnt í neina hættu, þótt það sé tekið út af dagskrá nú, en vil hins vegar gjarnan, að þetta mál eins og önnur sé afgr. með sem mestu samkomulagi. Þess vegna vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá, en vænti þess, að málið verði tekið aftur á dagskrá á morgun.