05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

1. mál, fjárlög

Skúli Guðmundsson:

Það var eitt atriði í till. fjvn., sem ég ætlaði að gera að umtalsefni, en hv. síðasti ræðumaður tók að mestu af mér ómakið. Það er till. um hafnargerð við Faxaflóa, 250 þús. kr. Ég veit, að mikil þörf er fyrir hafnargerð á þessum slóðum, en ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að eðlilegt sé, að menn fengju, áður en fjárhæðin er veitt, upplýsingar um, hvar höfnin eigi að vera.

Á undanförnum þingum hafa verið samþ. lög um hafnargerðir á ýmsum stöðum og þá ákveðið, að ríkissjóður legði fram 2/5 kostnaðar, en ríkisstjórnin hefði enn fremur heimild til að ábyrgjast, f. h. ríkissjóðs, upphæð, sem næmi öðrum 2/5 en 1/5 átti viðkomandi staður að leggja fram án ríkisábyrgðar: Enn þá hafa engin lög verið sett um hafnargerð við sunnanverðan Faxaflóa. Ég hef heyrt, að athugað hafi verið, hvar höfnin ætti að vera, en ekkert hefur verið lagt fyrir þingið, hvorki kostnaðaráætlanir eða annað. Ég geri ráð fyrir, að hv. þingmenn vildu fá upplýsingar um þetta.

Ég vildi skjóta því fram, hvort ekki mundi rétt, ef þetta yrði samþ., að geyma þetta fé, þar til lög yrðu sett um hafnargerð á þessum stað. Ég vil skjóta því til hv. fjvn., hvort hún vildi ekki flytja víðbótartill. við þennan lið, um að slík ráðstöfun yrði gerð.