05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég ætla ekki að fjölyrða almennt um fjárlögin né heldur um brtt. fjvn. Ástæðan til þess, að ég tek til máls, er sú, að fram hafa komið fyrirspurnir frá tveim hv. þm., þeim hv. þm. A.-Sk. og hv. þm. V.-Húnv., varðandi till. fjvn. um hafnargerð við sunnanverðan Faxaflóa, 250 þús. kr. Eins og hv. þm. muna, þá var samþ. á síðasta Alþingi að veita 100 þús. kr. til hafnargerðar við sunnanverðan Faxaflóa, og þó ekki séu nein ákvæði um, að þessum 100 þús. verði varið á sama hátt og 250 þús., þá er ekki hægt að fullyrða nema svo kunni að fara. — Hér er um brýna nauðsyn að ræða til hafnargerðar, og hv. þm. hafa viðurkennt þessa þörf. Vitamálastjóri hefur látið rannsaka ýmsa staði, en mun hafa fallið frá ýmsum þeirra, sem til mála hafa komið, eins og t. d. Keflavík, sem mörgum datt í hug sem framtíðarhöfn. Hins vegar er ekki hægt að segja um, að endanlegar ákvarðanir hafi verið teknar, en vitamálastjóri mun láta fara fram meiri rannsóknir. Þessi höfn hefur verið hugsuð með öðrum hætti en aðrar hafnir, sem hér hafa verið gerðar. Venja hefur verið, að ríkissjóður leggi fram vissan hluta kostnaðar og taki ábyrgð á öðru, en þó gegn framlagi frá viðkomandi hrepps- eða bæjarfélögum. Þessi höfn er hugsuð sem landshöfn .og að ríkið legði allt féð til hennar. Ekki einungis til að bæta um fyrir mönnum hér við Faxaflóa, heldur öllum landsmönnum. Það er venja, að smærri bátar flytja sig hvaðanæva að og hafa bækistöðvar á þessum slóðum á vetrarvertíð, og á þessi höfn fyrst og fremst að vera þeirra griðastaður.

Ég geri ráð fyrir, að ekki verði hafizt handa um byggingu þessarar hafnar strax, og ekki án þess að hér verði lagt fram á Alþ. frv. um það áður. Þó er hugsanlegt, að ríkisstj. fengi vald til að ráða stað til hafnargerðar, í samráði við sérfræðinga, og þá fyrst og fremst vitamálastjórnina. Ég veit, að óskir hafa komið fram um að hefjast handa eins fljótt og auðið er um byggingu hafnar eða umbætur frá því, sem nú er. Og þær raddir, sem komið hafa fram um þetta, hafa fengið fylgi almennings, vegna slysa, sem skeð hafa á þessum útgerðarstöðvum hér og margir þekkja.

Ég vildi nú, að þetta fé, a. m. k. þessar 250 þús., yrði lagt í sjóð í vörzlu vitamálastjóra, til notkunar síðar, þegar þörfin verður aðkallandi, en hins vegar vil ég mælast til, að hv. Alþ. samþykki þessa till. á þeim grundvelli, að hér er um óvenjulegt mannvirki að ræða, og að ríkisstj. yrði gefin heimild til að hefjast handa, þegar henni virtist tími til kominn. — Þetta á við 250 þúsundirnar, að þær yrðu lagðar í sjóð, og gæti einnig komið til mála með 100 þús., sem fengizt hafa til þessara þarfa.