07.04.1941
Efri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

78. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þetta mál er komið til landbn. frá búnaðarþingi, sem hafði það til meðferðar og samdi brtt. þær við búfjárræktarlögin, sem felast í þessu frv., og flytur landbn. það óbreytt eins og búnaðarþing samþykkti það, en hefur hins vegar bætt nokkru við greinargerðina.

Frv. þetta felur í sér tvær eðlisbreytingar, og snertir sú fyrri nautgriparæktina, en hin síðari hrossaræktina. Nautgriparæktarfélög munu nú vera um 100 á öllu landinu, og eru í þeim um 40% af öllum mjólkandi kúm. Hvert þessara félaga hefur starfað út af fyrir sig, nema í Eyjafirði, — þar hafa þau myndað með sér samband og ráðið sameiginlega starfsmann, sem í senn er ráðunautur og annast jafnframt það skýrsluhald, sem eftirlitsmaður hefur í hverju félagi. Hefur það sýnt sig, að það fyrirkomulag, sem er í Eyjafirði, hefur gefið betri árangur en þegar félögin starfa hvert fyrir sig, því að starfsmaður sambandsins þar hefur ekki aðeins yfirsýn yfir beztu kýrnar í einum hreppi, heldur í allri sýslunni og auk þess í tveim hreppum í Þingeyjarsýslu. Hann getur því betur lagt á ráðin um, hvaðan naut skuli fengin og hvaða kvígukálfar skuli uppaldir. Þessi starfsmaður sambandsins í Eyjafirði hefur átt fullt í fangi með að anna starfinu, en eftirlitsmenn nautgriparæktarfélaganna, sem hafa það starf í hjáverkum, geta af skiljanlegum ástæðum ekki lagt sig eins fram um starf sitt, enda hafa þeir aðeins lítilfjörlega þóknun. Það fyrirkomulag, sem frv. leggur til, að komið verði á, er nokkru dýrara, og hefur það staðið í vegi fyrir því, að slík sambönd mynduðust. Leggur n. því til skv. frv., að ríkið greiði 1 kr. í styrk fyrir hverja kú innan sambandsins, enda fullnægi það settum skilyrðum. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að slík sambönd er ekki hægt að stofna, nema þar sem samgöngur eru góðar og völ er á stöð, þar sem unnt er að framkvæma fitumælingar í mjólkinni. Er hugsanlegt, að á næstu árum megi gera ráð fyrir 5 slíkum samböndum: Í Eyjafirði, Skagafirði, Borgarfirði, nærsveitum Reykjavíkur og austan fjalls. Útgjöld ríkissjóðs til þessara sambanda mundu nema 7–8 þús. kr., ef þau mynduðust öll.

Að því er viðvíkur hinni breytingunni, sem frv. felur í sér, þá er hér um stefnubreytingu að ræða. Í hrossaræktinni eru til hrossaræktarfélög, og verður ekkert hreyft við þeim. Sýningar á hrossum hafa verið þriðja hvert ár, og hefur verið ein sýning í hverri sýslu. Á þessar sýslusýningar koma tiltölulega fá hross og þá oft aðeins úr næsta nágrenni og þá sömu hrossin með þriggja ára millibili. Þetta fyrirkomulag hefur haft þær afleiðingar í för með sér, að ráðunautur Búnaðarfélags Íslands hefur ekki fengið tækifæri til þess að sjá mikinn fjölda hrossa, þ. e. a. s. þau hross, sem ekki hafa komið á sýningarnar. Frv. gerir ráð fyrir, að sýningar verði eftirleiðis tvenns konar. Fyrst verði hreppssýningar, þar sem ekkert hross má koma nema einu sinni eða tvisvar á ævinni, og fær ráðunautur Búnaðarfélagsins þannig að sjá allan hrossastofninn um land allt. Að loknum hreppssýningunum verði haldnar sýslusýningar, þar sem almenningur eigi kost á að sjá úrvalið af hrossunum, eða þau, sem bezt voru á hreppssýningunum. Þá er önnur breytingin, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þar er gengið inn á þá braut, að stofnuð sé uppeldisstöð fyrir hross, sem rekin sé af ríkinu. Er ætlazt til, að ríkið eigi hestana, en síðan séu þeir leigðir hrossaræktarfélögum og einstaklingum. Felst í þessu miklu meira öryggi fyrir hrossaræktina, því að nú. er það svo, að hrossaræktarfélögin kaupa graðhestana mest eftir ytra útliti, en á tilrauna- og uppeldisstöðinni yrðu hestarnir rannsakaðir vísindalega svo sem kostur er á, og yrði þannig meiri trygging fyrir því, að valdir væru einungis góðir hestar til undaneldis.

Þá gerir frv. í þriðja lagi ráð fyrir því, að í sambandi við héraðssýningarnar verði heimilað að reka þolprófun sýndra hrossa, svo úr því fáist skorið, hvernig hestarnir eru í raun, og er þá jafnframt leyfilegt að hafa veðmálastarfsemi í því samandi.

Þetta eru aðalbreytingarnar, sem frv. felur í sér, og er hér um gerbreytingar að ræða í hrossaræktarmálunum. Í greinargerð eru þessar tillögur skýrðar allýtarlega, og vænti ég, að þótt allir hv. deildarmenn séu ef til vill ekki búnir að kynna sér hana til hlítar, muni þær skýringar, sem ég hef gefið á frv., stuðla að því, að þeir geti óttalaust samþykkt það til 2. umr. Annars hefur n. óbundnar hendur að gera brtt. á frv., enda þótt ég búist ekki við, að það verði þær breytingar, sem orð er á gerandi.