05.05.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

1. mál, fjárlög

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hafði ætlað að láta koma fram í ræðu minni áðan, að ríkisstjórnin mundi óska þess, ef ástæður þættu til, að þetta fé yrði lagt til hliðar, eins og hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hins vegar vildi ég láta koma fram, að ríkisstj. fengi heimild til að hefjast handa, ef þörf krefði, og í samráði við dómhæfa menn. Þess vegna vildi ég helzt, að þessi brtt. hv. þm. kæmi ekki fram. — Málið hefur verið rætt á þessum grundvelli á stjórnarfundum.

Svo ég víki að ræðu hv. 1. þm. N.-M, þá treysti ég mér ekki til að leysa þá þraut, hvernig öryggi Keflavíkurbátanna verður tryggt. En ég hefði þó hugsað mér, að það mætti með því að byggja höfnina í Njarðvíkum, og að Keflavíkurbátarnir yrðu fluttir þangað. Það má gera ráð fyrir, að höfnin verði ef til vill reist í Njarðvíkum, en það verður nú rannsakað nánar síðar. —