19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

78. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! þetta frv. er komið hingað aftur frá Nd. Þar var gerð sú breyting á frv., að nokkur hluti, síðasti. hluti 36. gr., var felldur niður.

Ákvæðið, sem þar stóð, hefur staðið í búfjárræktarlögunum frá því fyrsta og var um heimild til handa hrossaræktarráðunautum að kaupa stóðhesta, sem eigendur eiga erfitt með að hafa ógelta.

Hv. Nd. leit svo á, að óþarft væri að halda þessu, ákv. í l., ef upp yrði sett hrossaræktarstöð sú, sem áformað er að stofna eftir frumvarpinu.

Sú uppeldisstöð fyrir stóðhesta mundi þá kaupa slíka hesta. Og getur því n. hér í þessari d. fallizt á skilning hv. Nd. um þetta atriði og sér ekkert athugavert við það, að frv. sé samþ. í því formi, sem það nú hefur hlotið.