15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

79. mál, landnám ríkisins

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Mér næstum því ægir það vonleysi og vöntun á trú á landið og ræktun og landbúnað yfirleitt, sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv. Það fyrsta, sem ég heyrði af máli hans, var, að hann var að fetta fingur út í orðið „landnám“ í heiti frv., og hann spurði, hvort ætti að skilja það þannig, að við héldum því fram, að landið væri ónumið upp til sveita. Ég hélt, að hver, sem ferðazt hefur um landið með opin augu, mundi ekki þurfa að spyrja svo, því að aðeins örlítill hluti lundsins er numinn í þess orðs réttu merkingu. Hið ræktaða land er ekki nema ofurlitlar vonarstjörnur á mýrlendinu, sem sýna átakanlega, hve mikið enn er óræktað af landinu. Svo það sér hver heilvita maður, að hér er stórt verkefni fyrir þessa og næstu kynslóð að vinna, að nema landið í nútímamerkingu.

Ég sagði áðan, að mér ægði það trúleysi á ræktunarmálin, sem kom fram hjá hv. 5. þm.

Reykv. Og sérstaklega ægir mér það á þessum tímum, þar sem svo getur farið, að líf þjóðarinnar velti bókstaflega á því, að hægt sé að framleiða í landinu sjálfu allt, sem þjóðin þarf til fæðis og klæða, ef siglingar lokuðust. Og frekar væri ástæða til að ræða í sambandi við þetta mál, hvað ríkið hefur vanrækt mikið í þessum efnum á undanförnum árum, heldur en að mæla á móti því, sem hér er stefnt að.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist ofurlítið á þær nýbýlabyggingar, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum, og vildi hann halda því fram, að þær sönnuðu, að þetta væri vonlaust mál, þessi tilraun til þess að koma upp kollublettabúskap, sem hann svo nefndi, í sveitum landsins, sem mundi setja sveitirnar á höfuðið, að mér skildist hann meina, og eyðileggja búskapinn fyrir þeim, sem fyrir væru í sveitinni, að meira eða minna leyti. En sannleikurinn er, að þau nýbýli, með örfáum undantekningum, sem reist hafa verið á undanförnum árum, mega teljast hafa farið mjög farsællega af stað. Það er vitanlega í þessu sem öðrum málum, að einn og einn maður verður aftur úr og getur ekki bjargað sér. En hins vegar er þeim öllum ljóst, sem trúa á framtíð landbúnaðarins og að hér geti þrifizt blómlegur landbúnaður við hliðina á öðrum atvinnuvegum, og finnst þeim sömu mönnum of skammt stigið í þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið um þetta mál. Í manntali, sem nýlega hefur verið gefið út, kemur ein sönnunin enn til viðbótar við þær sannanir, sem fyrri manntöl hafa að geyma, um að öll fólksfjölgun sveitanna fer til kaupstaðanna, sérstaklega hinna stærri, en sveitirnar haldast varla við að fólkstölu; öll viðkoman fellur nauðug viljug til kaupstaðanna. Nú eru það bæði ég og fleiri, sem ekki hafa trú á slíkri rás viðburðanna til lengdar. Við viljum segja „hingað og ekki lengra“. Við viljum fara að spyrna við fæti gegn því, að öll fólksfjölgunin hverfi úr sveitunum til kaupstaðanna. Og þó að hv. þm. segi, að það muni vera meining okkar, sem erum forsvarsmenn þessa frv., að með því eigi að stofna til þess að beina fólksstraumnum úr kaupstöðunum og til sveitanna, þá er það ekki það, sem ég geri mér vonir um. En það mesta, sem fyrir mér vakir, er að stöðva þann straum að nokkru, sem átt hefur sér stað frá sveitum til kaupstaða, þannig að fólksfækkunin í sveitunum verði stöðvuð, og búa þeim mönnum, sem hafa löngun og hæfileika til þess að vera sveitamenn, möguleika til þess að geta verið í sveitunum. En eins og skilyrðin hafa verið fyrir þessa menn undanfarið, getur það verið algerlega ómögulegt fyrir efnilega menn að fá jarðnæði í sveitunum, þótt þeir vildu setjast þar að og eyða þar lífi sínu og kröftum. Þess vegna er hér í þessu frv. gerð tilraun til þess að taka nokkru fastar á þessu máli heldur en undanfarið hefur verið gert.

Nýbýlafjölgunin er hugsuð í þessu frv. á tvennan hátt. fyrst og fremst með því að skipta eldri býlum, helzt þeim, þar sem ræktun er komin það langt áleiðis, að lífvænlegt geti verið fyrir tvo bændur þar, sem áður var einn. Þetta er aðallega hugsað í dreifbýlinu. En hér er í öðru lagi hugsað að koma upp smábýlahverfum, þar sem aðstaða má kallast góð til samgangna og e. t. v. til að hafa þar ýmsan annan atvinnurekstur en búskap. Við hugsum okkur t. d., að það sé vel líklegt, að ef hægt væri að koma upp smábýlahverfum á hentugum stöðum í sveit, þá mundu rísa þar upp fleiri greinar atvinnurekstrar, t. d. iðnaður o. fl., sem gæti haft stuðning af ræktun, og ræktunin gæti haft stuðning af þessum nýja atvinnurekstri með því að framleiðendur á þessum býlum seldu þangað afurðir sínar. M. ö. o., við hugsum okkur, að það kæmu upp fjölbýlishverfi í sveitunum.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv., að það væri ekki aðalatriðið, að sem flestir ættu heima í sveitunum, heldur, að þeir, sem þar væru, gætu haft það góða afkomu, að þeim liði vel og gætu unað þar hag sínum. En sannleikurinn er sá, að það, sem háir sveitunum mest, er fámennið í sveitunum. Við vitum, að unga fólkið sækir þangað, sem fjölmennið er, þar sem hægt er að svala heilbrigðu félagslífi. Og það er einmitt fámennið og strjálbýlið í sveitunum, sem kemur því til að sækja þangað, sem þessir möguleikar eru fyrir hendi fyrir æskuna. Það, sem því ríður mest á, ef við ætlum að halda fólkinu kyrru í sveitunum, er að þétta byggðina og fjölga býlum þar. Það er ætlazt til þess, að með þessum nýbýlahverfum sé hægt að koma upp slíkum stöðum í sveit, sem hafa þá kosti til að bera, er ég gat um, sem halda fólkinu þar.

Og þegar hv. þm. talar um kollublettabúskap, þá hygg ég, að hann bindi sig of mikið við gamla búskaparháttu, mikið land með lítilli ræktun, og með tilliti til þess búskaparlags finnist honum mjög óaðgengilegt fyrir menn að hafa litla bletti til afnota. En nú er það sannað, að oft vegnar þeim betur, sem hafa lítið land, en vel ræktað, og fáar skepnur, vel kynbættar, heldur en þeim, sem hafa mikið land og meiri fénað, sem ekki gefur að sama skapi góðan arð. Það getur á margan hátt reynzt miklu farsælla að hafa minna land undir höndum, en vel ræktað.

Annað atriði í þessu frv., sem hv. 5. þm. Reykv. minntist minna á og mér virtist hann frekar leggja blessun sína á, var ræktun nærri kaupstöðum og sjávarþorpum. Hann áleit, að slíkur smábúskapur ætti rétt á sér, þar sem hann hins vegar fordæmdi alveg býlaaukningu upp til sveitanna. Og það, sem þarna er gerð till. um, er byggt á reynslu þeirri um allt land, að alls staðar í hverju sjávarþorpi og kauptúni, þar sem kauptúnin hafa haft aðgang að nægilegu ræktunarlandi og íbúarnir hafa ræktað þetta land til að hafa not þess við hliðina á öðrum störfum, þessi kauptún skera sig úr um það, hvað fólki þar líður betur og er betur megandi. Það þarf því ekki að deila um það atriði frv. Ég hef að vísu heyrt því haldið fram, að með þessu væri stefnt að því að eyðileggja markaði fyrir sveitunum fyrir sínar afurðir með framleiðslu þessara landbúnaðarafurða við sjávarþorpin. En sannleikurinn mun nú vera sá, að í þeim sjávarþorpum, þar sem ekki er um annað að ræða til atvinnu en sjósókn og ekki hægt að stunda sjóinn nema kannske nokkurn hluta af árinu, þá hefur fólkið þar ekki efni á að kaupa landbúnaðarvörur. Og þó að fólk þar hefði aðstöðu til að taka upp framleiðslu á landbúnaðarafurðum, svo sem kartöflum og mjólk þá mundu einmitt gegnum þessa bættu aðstöðu skapast möguleikar fyrir þetta fólk til þess að kaupa t. d. kjöt af bændum, þannig að það yrði ekki til þess að rýra möguleikana til þess, að þetta fólk keypti af bændum, heldur til þess að auka líkurnar til þess, að það gerði það.

Hv. 5. þm. Reykv. áleit það vanhugsað að stofna til þess að auka mjólkur- og kjötframleiðsluna í landinu, vegna þess að örðugt hefð: löngum reynzt að fá markaði fyrir þessar vörur, innan lands og utan. Má vera, að þar hafi hv. þm. nokkuð til síns máls. En þó að markað hafi vantað fyrir þessar vörur, þá hefur það ekki verið fyrir það, að þörfin hafi ekki verið fyrir þær í landinu, heldur hefur markaðstregðan stafað af því, að fólkið hefur ekki haft efni á því að kaupa þessar vörur. Og þessi tilraun, sem hér er stefnt að að gera, er m. a. til þess, að fólkið við sjóinn fái aðstöðu til þess að afla sér þeirra sjálft, bæði með ræktun við kauptúnin og kaupstaðina og með því að setjast að í sveit. Og þó að nokkur vandkvæði hafi verið á því undanfarin ár að selja kjöt og mjólk, þá hljótum við að sjá, að ef alltaf bætist við fólkið í kaupstöðunum, en fækkar í sveitunum, þá kemur einhvern tíma að því, að landbúnaðurinn brauðfæðir ekki þjóðina. Og það er mjög mikið gáleysi að hugsa ekki fyrir þessum málum fyrr en svo er komið. Ég er sannfærður um það, að ekki er of snemma hafizt handa um þessi mál, hina auknu ræktun og tryggingu landbúnaðarins. Og þessir tímar, sem nú eru, eru þjóðinni alvarleg áminning um það að vanrækja ekki þann þátt í lífsbaráttunni, sem að því snýr að tryggja framleiðslu matvæla handa þjóðinni í landinu sjálfu, á hverju sem kann að ganga. Þess vegna eru þessir tímar, sem nú standa yfir, og áminning sú, sem við megum af þeim hafa, hin sterkustu rök á móti þeirri vantrú, sem kom. fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv.