13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

79. mál, landnám ríkisins

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þetta mál, sem hér liggur fyrir og komið er inn í þessa deild frá hv. Nd., er flutt inn í þá deild af landbn., en málið er annars undirbúið af þeim Jens Hólmgeirssyni, Sig. Á. Björnssyni og Kjartani Ólafssyni, sem hafa haft þetta mál til meðferðar, samið þetta frv. og sent það búnaðarþinginu, er breytti því nokkuð og síðan mælti með því, að frv. yrði samþ. og sent Alþingi til samþykktar.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að árlega sé varið nokkru fé til þess að undirbúa land í sveitum undir nýbýli. Það er miðað við, að þessi nýbýli myndist í hverfum, annaðhvort við sjó eða í sveitum, og sé þá einnig byggt á landbúnaði, og er þá eðlilega ætlazt til þess, að landið, sem býlin fá, sé misstórt. Það er gert ráð fyrir því, að ríkið sjái um ræktun landsins, og það þá fyrst og fremst á landi, sem ríkið á, og býlin séu svo afhent meira eða minna fullunnin til þeirra, sem við þeim taka, og stundum alveg fullunnin. Einnig er ætlazt til þess, að einstakir menn, sem óska að leggja fé í þetta með sinni eigin vinnu, geti komið til greina og á þann hátt tryggt sér rétt til býlisins, þegar það er fullgert.

Eftir að hafa athugað þetta frv. í landbn., að einum nm. fjarstöddum, urðum við sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ., en ég legg nú til, að á því verði gerð ein lítil breyting.

Í frv. er ætlazt til þess, að þessi framkvæmd sé árlega, en það er vel hægt að hugsa sér, að aðstaðan sé þannig, að ekki sé rétt, eins og sakir standa, að taka í eitt eða tvö ár vinnukraft til þess að undirbúa þessi býli. Þess vegna er breyt. mín í því fólgin að færa 1. gr. frv. í heimildarform, þannig að í staðinn fyrir „Ríkisstjórnin skal láta framkvæma. ....“, komi: Ríkisstjórninni er heimilt að láta framkvæma o. s. frv. ... — Breytingin er eingöngu innifalin í því, að ríkisstj. er ekki skylt að láta gera þetta, þegar ekki þykir rétt að taka fólk í þá undirbúningsvinnu, sem óhjákvæmileg er til þessara framkvæmda.

Ég geri ráð fyrir því, að n. geti orðið sammála um þessa breyt. og um það, að þetta er mikið og þarft mál, því satt að segja, getur okkar þjóðfélag ekki búið við það lengur, að sú fólksfjölgun, sem verður í sveitunum, geti ekki vegna staðhátta þar myndað sér framtíðarheimili, heldur þurfi að fara í bæina til þess.

Ég lít svo á, að með þessu sé að vísu ekki leystur nema einn liður af mörgum fleirum, sem þarf að leysa til þess að því takmarki sé náð, að fólksfjölgunin í sveitum geti búsett sig þar og stundað þar framleiðsluvinnu. En þetta frumv. er einn liður til þess að ná þessu marki, en náttúrlega liggur grundvöllurinn að því annars staðar. Nú er allt land einstakra manna eign og leigt til margra ára, og menn hafa ekki aðgang að því, þó þeir vilji, þess vegna geta ekki komið upp nýbýli nema með lagalegri aðstoð þess opinbera, og þá helzt með því að heimila, að land undir nýbýli sé tekið eignarnámi hvenær sem einhver vill stofna það. En það er mál út af fyrir sig, sem ekki þarf að ræða í þessu sambandi.