15.05.1941
Efri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

79. mál, landnám ríkisins

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Við nánari athugun á frv. komst n. að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að flytja við það eina brtt. Er hún á þskj. 505, við 9. gr. Eins og 9. gr. var orðuð frá Nd., endaði gr. á því, að ef hreppsnefnd og nýbýlastjórn gætu ekki komið sér saman um ábúanda á þeim jörðum, sem frv. fjallar um, þá væri óheimilt að byggja jörðina þeim manni, sem hreppsnefnd gæti ekki fallizt á. Nú eru þess dæmi, — alkunnast er það, svo að ég noti dæmi, sem víst er, að engan særir —, að í Skagafirði var um nokkurra áratuga skeið maður, sem þrisvar sinnum var búið að dæma fyrir þjófnað og enginn hreppur hefur viljað fá. Það geta oft verið gildar ástæður fyrir hreppsnefnd að vilja ekki mann í sveitina, en stundum geta það líka verið tylliástæður, sem ekki sé rétt að taka tillit til. N. vill því ekki láta liggja svona ótvírætt í valdi hreppsnefnda að geta bægt mönnum frá, kannske mönnum, sem eftir frv. eru búnir að vinna sig inn á býlið, og þótti því réttara, ef ágreiningur yrði um þetta, þá mætti skjóta honum til stjórnarinnar.

Þetta er eiginlega eina brtt. n., en til þess að fyrirbyggja, að hægt sé að skilja það svo, að með þessu geti hreppsnefnd líka sett stein í götu þeirra, sem ætla að byggja á þeim smábýlum, sem upp rísa eftir 3. gr. í nánd við bæi og ekki eru nema 2 ha., kom til tals í n., hvort þyrfti að orða það greinilegar, en með tilliti til ábúðarl., er ákveða, hvað stórar jarðir þurfi að vera til þess að kallast jarðir, töldum við, að þessi ákvæði 9. gr. nái ekki til þeirra smábýla, sem ætlað er að rísa upp eftir 3. gr. frv. og eru ekki nema 2 ha. og eingöngu eru ætluð til stuðnings þeim, sem styðjast við aðra atvinnu. Við lítum svo á, að þessi ákvæði gildi eingöngu um þau býli, sem eru það stór, að þau kallist jarðir.

Aðrar breyt. hefur n. ekki séð ástæðu til að gera við frv. og leggur til, að það verði samþ. með þeirri einu breyt., sem till. er um á þskj. 505.