23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

119. mál, verðlagsuppbót til héraðsgagnfræða og húsmæðraskóla

Emil Jónsson:

Ég vildi beina því til n., hvort ekki væri hægt að bæta styrki, er veittir eru til unglingafræðslu og iðnskóla í kaupstöðum. Þetta eru að vísu ekki lögboðin framlög, en mér er vel kunnugt um, að þessir aðilar, a. m. k. annar þeirra, eiga í vök að verjast og geta ekki staðið straum af kostnaðinum, nema einhver uppbót komi. Ég veit ekki, hvort þetta er kleift, en æskilegt væri, að það yrði athugað.

Að öðru leyti er ég samþykkur frv. og vil tjá því mitt fylgi. Ég veit vel, að gagnfræðaskólar eiga mjög erfitt uppdráttar og geta ekki staðizt greiðslur sínar, nema með því að fá styrk frá bæjarfélögum.