08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Skúli Guðmundsson:

Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að bera fram tvær fyrirspurnir til hæstv. fjmrh.

Í till. meiri hl. sjútvn. er gert ráð fyrir því, að helmingur af því útflutningsgjaldi, sem ríkissjóður tekur árlega af hvers konar sjávarafurðum, skuli hér eftir falla til fiskveiðasjóðs. Það liggur í augum uppi, að þetta hefur allmikil áhrif á fjárhagsafkomu ríkissjóðs. Síðasta ár mun útflutningsgjaldið hafa numið 1 400 000 krónum eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf, þegar hann lagði fjárlagafrv. fyrir þingið. Hefði þetta ákvæði frv., sem ég nefndi, verið í gildi þá, hefði þetta numið rúmum 700 000 kr., sem tekjur ríkissjóðs hefðu rýrnað við þessa ráðstöfun árið sem leið. Ég sé, að í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er útflutningsgjaldið ekki áætlað nema 850 000 kr., en eftir þeirri áætlun mundu þó tekjur ríkissjóðs minnka um meira en 400 000 kr., ef þetta ákvæði frv. verður samþ.

Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort hann telji fært að skerða tekjur ríkissjóðs á þennan hátt sem þessu nemur.

Hin fyrirspurnin, sem ég vildi leyfa mér að bera fram, er um vextina af lánum úr fiskveiðasjóði, sem hér eru tvenns konar till. um. Það er náttúrlega ekkert nema gott um það að segja, að aðalatvinnuvegir landmanna geti fengið lán með sem hagstæðustum vaxtakjörum. En þar kemur vitanlega margt til greina og m. a. það, að takmörk eru fyrir því, hve lágt er hægt að fara með vexti af sparifé, sem lánsstofnanir hafa í sínum vörzlum og veita út til atvinnuveganna.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um það, að vextirnir ættu að miðast við það, hvað lánin væru veitt til margra ára. En ég tel það ekki síður skipta mjög miklu, hve góðar tryggingar eru fyrir lánunum. Ég hygg, að ekki verði um það deilt, að tryggingar fyrir landbúnaðarlánum séu betri heldur en hér í þessu frv. er gert ráð fyrir um tryggingar fyrir lánum úr fiskveiðasjóði. Því að það er allmikil hætta á því, að sjóveð falli á skip, og þá rýrnar veðgildi þeirra. Er því ljóst, að fasteignaveð er tryggara heldur en veð í skipum.

Nú finnst mér, að a. m. k. ef það verður samþ., að vextirnir séu aðeins 4% af lánum úr fiskveiðasjóði, þá verði ekki hjá því komizt að óska þess, að vextir af t. d. ræktunarsjóðslánum verði til samræmis færðir alhnikið niður frá því, sem nú er.

Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort hann, ef hann getur fallizt á þessar till. sjútvn. um vaxtakjör, sem hér liggja fyrir viðkomandi fiskveiðasjóði, vildi þá einnig veita því máli liðsinni, ef fram yrði borið frv. um lækkun á vöxtum af landbúnaðarlánum, tilsvarandi við það, sem hér liggur fyrir, sem vitanlega yrði þá gert á kostnað ríkissjóðs á einn eða annan hátt. Þetta hefði mér þótt gott að fá upplýst áður en við eigum að fara að greiða atkv. um þær till., sem hér liggja fyrir.