08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég þykist sjá, að hv. þm. Ísaf. kjósi heldur að koma á eftir mér, þótt hann eftir röð eigi að taka næst til máls, af hvaða ástæðum, sem það er. En ég hafði ekki hugmynd um, að fyrirspurn hv. þm. V.-Húnv. stæði neitt í sambandi við það, sem hv. þm. Ísaf. hafði hugsað sér að láta frá sér heyra í sambandi við þessar umr. Hins vegar mun hann eiga sæti í sjútvn. og er flm. frv., og það er náttúrlega eðlilegt, að hann vilji gera eina ferðina, ef hann kynni að hafa eitthvað við það að athuga, sem ég segi um þetta.

Þessar fyrirspurnir hv. þm. V.-Húnv. — ja, það má segja, að full ástæða sé til þess, að þær eru fram bornar. En æðsti dómstóll í þessum málum er náttúrlega hæstv. Alþ. sjálft. Og fyrsti umboðsaðili Alþ. í því sambandi er hv. fjvn., svo að í raun og veru hefði hv. þm. eins getað beint þessari fyrirspurn til þeirrar hv. n.

Ég get náttúrlega ekki annað en tekið undir það, að varlega beri að fara í því að binda ríkissjóði bagga fyrir framtíðina og binda hans venjulegu rekstrartekjur á þann hátt, sem nú m. a. er farið fram á í þessu frv. En hins vegar er það nú orðið þekkt, að ef Alþ. telur, að afkomu ríkissjóðs kunni að vera nokkur hætta búin í sambandi við slíkar kvaðir, sem það hefur sjálft lagt á, þá er ein útgönguleið, og það er að setja upp lagasetningu í svipuðu formi sem við þekkjum undir nafninu bandormur. Og ég býst við, að í skjóli þess úrræðis muni þingið sjá sér miklu fleira fært að samþ. í þessum efnum heldur en annars mætti teljast kannske fullforsvaranlegt, ef það væri fyrirfram vitað, að engin leið væri til þess að komast undan skuldbindingum, ef harðnar í ári fyrir ríkissjóði. Ég er sammála hv. þm. um, að það beri að fara varlega í þessum efnum. En að sjálfsögðu er það Alþ. sjálft, sem verður að taka ákvörðun um það, hvað það telur fært á hverjum tíma að leggja fram af tekjum ríkissjóðs til slíkra mála. Það eru kannske nokkrir erfiðleikar á að taka slíkar ákvarðanir á slíkum tímum sem nú, þegar öll þjóðin, og jafnvel Alþ. sjálft, sér varla út úr augunum fyrir þeim peningum, sem mönnum finnast vera í ríkissjóði, þannig að allar leiðir hljóti að vera færar, og úrræði hljóti að vera til þess að veita sér miklu meira en á venjulegum tímum. Og ég býst við, að þetta m. a. geri sig gildandi í sambandi við þetta frv.

Sem sagt, viðvíkjandi þessari fyrirspurn hv. þm. get ég ekki annað en tekið undir það með honum, að allrar varúðar beri að gæta í sambandi við þetta mál sem önnur, er líkt stendur á um.

Hvað viðvíkur vaxtakjörum um lán úr fiskveiðasjóði, þá verð ég líka að vera sömu skoðunar sem hv. þm. V.-Húnv., að mér finnst ekki nema eðlilegt, að fasteignaveð njóti nokkuð betri vaxtakjara heldur en þau veð, sem um er að ræða í þessu sambandi, m. a. af því, sem hv. þm. tók fram, vegna hættu á skipsveði. Eins hefur verið litið svo á í þessu landi yfirleitt, að sjávarútvegurinn væri þess umkominn að bera nokkru erfiðari vaxtakjör heldur en landbúnaðurinn í venjulegu árferði. Ég teldi það þess vegna nokkuð eðlilega kröfu, ef vextir yrðu ákveðnir af fiskveiðasjóðslánum eins og farið er fram á í þessu frv., þá yrði farið fram á svipuð kjör um vexti af landbúnaðarlánum. Og þá ber hæstv. Alþ. að taka það með í reikninginn, að þá mundi einnig sú vaxtalækkun, sem í því sambandi væri um að ræða, leggjast á ríkissjóð, eins og hv. þm. V.-Húnv. veik að.

Fyrir mitt leyti held ég, að óþarflega langt sé hér farið í till. n. um lækkun vaxta af fiskveiðasjóðslánum, að þeir séu lækkaðir í 4%, og teldi ég, að réttara væri að hafa þá vexti nokkru hærri.