23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Jón Ívarsson:

Þegar þetta frv. var til 2. umr. hér í þessari hv. d., þá bárum við hv. þm. N.-Þ. fram brtt. við það, m. a. um það, að tekjuöflun

þessa sjóðs væri á þann hátt, að innheimt væri sérstakt gjald, sem rynni í fiskveiðasjóðinn, og værri það, ½% af útfluttum sjávarafurðum. Sú brtt. naut ekki nægilegs fylgis hér í hv. d., og fór frv. héðan með þeim ákvæðum um fjáröflun til sjóðsins, sem hv. meiri hl. sjútvn. hafði lagt til, að til sjóðsins skyldi renna helmingur þess útflutningsgjalds, sem ríkissjóður tekur árlega af hvers konar sjávarafurðum.

Það fyrsta, sem við till.-menn vildum ná með því að hafa þetta ½% gjald, var, að sjóðnum yrðu tryggðar öruggari tekjur heldur en með öðrum hætti, án þess þó að íþyngja atvinnuvegunum með of háu gjaldi. Við álítum, að með því að hafa þetta gjald ekki hærra en ½%, yrðu líkur fyrir því, að ekki yrði tekið af tekjum sjóðsins, þó að erfiðara yrði í ári. En á því hefur bólað á undanförnum árum, að gjöld, sem ætluð hafa verið til einstakra stofnana, hafa verið tekin í ríkissjóð, og er sú hætta alltaf fyrir hendi, ef um of hátt gjald til slíkra stofnana er að ræða. Nú hefur hv. Ed. breytt þessu svo, að í staðinn fyrir helming kemur einn fjórði hluti þess útflutningsgjalds, sem ríkissjóður tekur árlega af hvers konar sjávarafurðum, og mun það sízt gefa hærri tekjur heldur en brtt. okkar hv. þm. N.-Þ. gerði ráð fyrir. Þvert á móti mun þetta gefa minni tekjur heldur en að taka ½% gjald af útfluttum sjávarafurðum, eins og við gerðum ráð fyrir. Þegar brtt. okkar hv. þm. N.-Þ. lá fyrir, tókum við fram, að við værum mótfallnir því að skipta svona tekjum ríkissjóðs, eins og í frv. er gert ráð fyrir. En þar sem samkomulag hefur orðið um þetta í hv. Ed., og litlar líkur fyrir því að þeim fengist breytt hér, hefur okkur flm. fyrrnefndrar brtt. komið saman um að fylgja þessu máli við þessa umr. og greiða fyrir því, að sjóðurinn geti fengið þessar tekjur, þó að við hins vegar álítum það lægri tekjur heldur en eftir okkar brtt. hefði verið hægt að ná í sjóðinn.

Önnur breyt., sem hefur orðið á frv. í hv. Ed., er þannig, að við erum henni samþ. og munum þess vegna fylgja þessu máli út úr d., þó að við hefðum kosið., að afgr. hefði orðið á aðra lund um hið fyrrgreinda atriði.