07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

131. mál, þegnskylduvinna

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Það er að vísu 2. umr. málsins, en við 1. umr. var engin framsaga um málið.

Landbúnaðarnefnd barst frá ríkisstj. frv. til l. um þegnskylduvinnu vegna jarðræktar. Fannst landbn. of skammt gengið í því frv., þar sem aðeins var miðað við jarðrækt. Hefur n. því samið nýtt frv., sem fer um ýmsa hluti nær hinni gömlu hugmynd um þegnskylduvinnu, en felur í sér aðalatriði frv. stj. Fær hver hreppur eða kaupstaður heimild til þess skv. frv. að koma á þegnskylduvinnu með aðstoð ríkisvaldsins, og er með þessu móti ekki um neina þvingun að ræða. Það er ekki ætlazt til þess, að varið verði meira fé úr ríkissjóði til þegnskylduvinnu en veitt er í fjárlögum á hverjum tíma.

Ég hygg, að eftir hinar miklu umræður, sem orðið hafa um þegnskylduvinnuna, sé rétt að gefa landsmönnum kost á að reyna þetta fyrirkomulag; ef það gefst vel, gæti það haft mikla þýðingu og þegnskylduvinnan síðar orðið almenn.

Ég hygg, að engir hagsmunir muni geta komið í bága við þessi einföldu heimildarlög og að þau sæti engum mótbárum hér á Alþingi.