26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög

Bergur Jónsson [Frh.] :

Þá vil ég minnast á XXIV. brtt., sem við hv. þm. Mýr. eigum á þessu þskj. Er þar farið fram á 300 kr. styrk til Vilborgar Torfadóttur, ekkju Eyjólfs Sveinssonar kennara. Þessi till. er í samræmi við ýmsar slíkar fjárveitingar á fjárl. Er mikil ástæða til að samþ. þessa till., því að ekkjan er ákaflega illa efnum búin. Maður hennar hafði verið kennari í 30 ár, valinkunnur maður. Vil ég geta þess, að fræðslumálastjóri hefur mælt með því eindregið, að henni yrði veitt þessi upphæð, og jafnframt vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp bréf þessu viðvíkjandi frá skólastjóra Rauðasandsskólahverfis til fræðslumálastjóra. Þar segir svo :

„Ég vil hér með skýra yður frá því, herra fræðslumálastjóri, að hinn 8. þ. m. andaðist Eyjólfur Sveinsson kennari á Lambavatni, 55 ára að aldri, eftir langan og þjáningarfullan hjartasjúkdóm. Hann lætur eftir sig ekkju, Vilborgu Torfadóttur, og þrjá syni, 4 ára, 10 ára og 13 ára að aldri. Eyjólfur sál. var kennari hér í sveit um 30 ára skeið, að undanteknum stuttum millibilum. Hann stundaði starf sitt með alveg óvenjulegri ósérplægni og alúð og fylgdist vel með og las mikið. Hann var brautryðjandi ungmennafélagsskaparins hér um slóðir og starfaði að þeim félagsmálum með lifandi áhuga til dauðadags. Hann stundaði mikið náttúrufræðiathuganir hér vestra í samvinnu við Bjarna Sæmundsson. Eyjólfur var gagnfræðingur frá Flensborgarskóla og stundaði framhaldsnám við skóla á Jaðri í Noregi.

Ekkjan mun, eftir því sem ég bezt veit, standa uppi mikið til með tvær hendur tómar með börn sín og vera upp á annarra hjálp komin. Eyjólfur gat engum manni neitað um hjálp, og mun það lítið hann eignaðist, aðallega áður en hann giftist, hafa mest lent í lánum, en lítið af því hafa komið aftur, hvorki vextir né afborganir.“

Svo eru tilmæli skólan. þess efnis, að ekkjunni og börnum hennar séu útvegaðir styrkir eða hún sett á eftirlaun, en ég legg til, eftir venju, að henni verði veitt 300 kr. eftirlaun á fjárl.

Þá er XXVIII. brtt. á sama þskj. um 300 kr. styrk til Maríu G. Jónsdóttur, ekkju Ásbjörns Nikulássonar fiskimatsmanns. Maðurinn hafði stundað fiskimatsstarf lengi og naut mikils álits. Ekkjan er illa stæð fjárhagslega. Maður hennar dó tiltölulega snögglega úr krabbameini og var þá ekki kominn á eftirlaunal., svo að ekkjan hefur ekki orðið eftirlauna aðnjótandi, en hins vegar er ekkert réttlæti í því að láta hana gjalda þessa.

Þá er XXXII. till. á þessu þskj., sem ég flyt ásamt þrem öðrum hv. þm. Er hún um allt að 15 þús. kr. framlag til að koma upp talstöðvum á afskekktum sveitabæjum og leggja ódýra jarðsíma í tilraunaskyni. Það er augljóst, að kostnaðarsamt mundi vera að leggja síma um allt landið með stauralagningu og vönduðum sæsíma. Því förum við fram á, að stj. sé heimilt að veita þessa fjárhæð í áðurnefndu skyni: Hugsum við okkur, að talstöðvar þessar geti komizt í samband við landssímann, eins og talstöðvar í bátum.

Það er kunnugt eftir því, sem ég hef séð á erlendum ritum, og eftir því, sem ég hef fengið upplýst af sérfræðingum um það efni, að nú í styrjöldinni hafi verið mikið notaðar jarðsímalagningar, vegna þess hve ódýrar og fljótlagðar þær eru. Má vera, að við rannsókn á þessu komi einnig í ljós, að hér á landi verði hægt að leysa erfiðleikana á því að koma afskekktum bæjum í símasamband með þessu móti, að leggja jarðsíma, á miklu ódýrari hátt heldur en með því að hafa talstöðvar, hvað þá heldur með stauralagningum. Get ég ekki annað skilið en að með sanngirni verði litið á þessa brtt., því að auk þess sem tilgangur hennar er að veita þeim mönnum nokkurt hagræði, sem erfiðast eiga með að fá símasamband, þá er hún í raun og veru sparnaðartill., ef samþ. þessarar brtt. verður til þess að sanna, að hægt sé að fullnægja símaþörf afskekktra bæja með ódýrum símalagningum.

Þá eru tvær brtt. á þskj. 638; II. og VI. liður, sem ég ber fram með hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Vestm., um nokkra hækkun á styrk til Kollabúðaheiðarvegar. Þessi Kollabúðaheiðarvegur ætti að réttu lagi að heita Vesturlandsvegur, vegna þess að hann er framlenging á þeim vegi, sem lagður hefur verið um Suðvesturland um Geiradal og Reykhólasveit og nú er kominn nokkuð inn fyrir Þorskafjörð. Og þessi vegur á að vera einn liður í akvegakerfi landsins. Það nær ekki nokkurri átt, að Vestfirðingafjórðungur sé svo settur út undan, að á sama tíma sem varið er mörgum hundruðum þús. — og ef lengri tími er tekinn milljónum — til þess að koma öðrum landsfjórðungum í vegasamband við aðalvegi landsins, þá skuli vera verið að píra með 10–15 þús. kr. fjárveitingar til þessa akvegar, sem þó, sem betur fer, kostar aldrei meira að leggja en 100000–200000 kr. Þessi vegarlagning er ekkert sérmál Vestfirðingafjórðungs, enda hefur einn hv. þm. úr Sunnlendingafjórðungi gerzt meðflm. að þessari brtt., heldur er hér um að ræða till., sem ætti að vera einn liður í áætlun um það, hvernig öllu aðalvegakerfi landsins sé fyrir komið. Þetta er alls ekki sérmál Barðastrandarsýslu. Að vísu njóta tveir hreppar, Geiradalshreppur og Reykhólahreppur, þessarar lagningar akvegar um Kollabúðaheiði og norður yfir Langadal að Ísafjarðardjúpi. En þetta er þó ekki síður mál Dalamanna, Mýramanna, Borgfirðinga, Reykvíkinga og þeirra, sem heima eiga á Suðurlandsundirlendinu, og þeirra Norðlendinga, sem vilja hafa eitthvert samband við Vestfirði. Ég vona, af því að þessum brtt. er mjög í hóf stillt, þar sem við bætum aðeins 20 þús. kr. við þær 15 þús. kr., sem til þessa vegar eru ætlaðar á fjárl., þá verði þeim sýnd sanngirni af hæstv. Alþ. og hv. þm. geri sér ljóst, að hér er ekki um neitt sérstakt kjördæmamál að ræða, heldur um hitt, að komast eitthvað í áttina til sanngirni og réttlætis í skiptingu vegafjár milli landshluta.

Fleiri brtt. hef ekki borið fram. Og enda þótt þessar brtt. séu nokkrar talsins, þá er heildarupphæð þeirra mjög lítil móts við þær upphæðir, sem nú eru á fjárl., og miðað við upphæðir á sumum brtt., sem bornar hafa verið fram.

Um eina brtt. á þskj. 597, frá hv. fjvn., um 24 þús. kr. fjárveitingu til endurbóta á gömlum íbúðarhúsum á prestssetrum, vil ég taka fram, að ég tel það mjög vel farið, að sú till. skuli hafa komið fram, og mun ég því greiða atkv. með henni. En ég vil taka það fram, að ég tel ekki réttlátt, að það sé gert neitt upp á milli prestssetra, þar sem prestar nú eru, og þeirra prestssetra, þar sem bændur eru, vegna þess að prestar fást ekki til að fara þangað, eins og t. d. er um Brjánslæk. Þar hefur búið ágætur og dugandi bóndi um mörg ár. En bara vegna þess, að það er prestssetur, sem hann býr á, þ. e. a. s. að ekki er búið að leggja það niður að 1. sem prestssetur, þá hefur hann ekki getað fengið neitt fé til endurbóta á húsi, sem er margra tuga ára gamalt og í raun og veru manndrápskofi, sem ekki er hægt að ætlast til, að menn búi í. Og ég er sannfærður um, að enda þótt einhver prestur vildi fara að Brjánslæk, sem er þægileg jörð og góð bújörð, þó hún sé lítil, mundi þetta standa í vegi fyrir því, að sæmilegur prestur fengist þangað. Það er ekkert réttlæti í því að gera svona upp á milli manna, að láta bónda ekki fá endurbyggingarfé, sem kannske gerir jörðinni betri skil heldur en prestur, og bíða með að endurbæta byggingar á þessum jörðum, þangað til einhver prestur, kannske pokaprestur, kæmi þangað.