07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

131. mál, þegnskylduvinna

Sigurður Kristjánsson:

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu, en mér þótti réttara að gera grein fyrir atkvæði mínu um þetta mál í stuttri ræðu. — Mér finnst ekkert merkilegt, þó að þetta frv. komi fram hér á Alþingi og ekki nema eðlilegt, að menn, sem álíta þegnskylduvinnu heppilegt fyrirkomulag, reyni að hrinda því máli áleiðis. — Um þetta hafa alltaf verið skiptar skoðanir, og er því eðlilegt, að það sé líka hér á þingi. — Ég undrast mjög það form, sem frv. er komið fram í. Ef þjóðfélagsleg þörf væri fyrir hendi, svo þegnarnir þyrftu að vinna nauðsynlega skylduvinnu, þá er ekkert við því hægt að segja. — En ég neita því, að það sé bein skylda að vinna þannig, á þann hátt, sem þarna er farið fram á.

Þegar atvinnulíf er í því ástandi, sem nú er, þá er þetta áreiðanlega röskun á atvinnuháttum manna, og það þýðir ekki að neita því, að það mun ávallt skoðast sem fórn. — Ég hef alltaf tekið fram, að æskilegt væri að geta losnað við þegnskylduvinnu. En ef hún yrði ákveðin, þá yrði það að vera af brýnni þjóðfélagsnauðsyn, og að þá yrðu unnin verk, sem annars er greitt fé fyrir úr ríkissjóði.

Ef ríkið segði sem svo: „Ég hef ekki efni á að leggja vegi, ekki ráð á að halda uppi gæzlu við strendur landsins, ekki ráð á að byggja hafnir, þess vegna gerist þörf að krefja borgara þjóðfélagsins til að vinna þarna fyrir ekki neitt,“ — ef þannig væri farið að, þá væri þó einhver grundvöllur til að standa á.

En að finna upp á því að leggja þessar skyldur á menn og láta ríkið jafnframt verða fyrir útgjöldum, það finnst mér undarlegt, og ég skil ekki, hvernig slík hugmynd getur myndazt í höfði nokkurs manns. Mér finnst það slík fjarstæða. Þeir menn, sem yrðu kvaddir til þess að vinna, mundu ekki líta á þetta sem neinn vinnuskóla, heldur sem fórn. — Ef sveitarfélögum yrði heimilað að gera þetta, þá er ég hræddur um, að það mundi skapa flótta á milli sveita.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en mun láta þetta nægja. — Mér finnst ekkert mæla með þessu frv. í því formi, sem það liggur hér fyrir, og mun ég greiða atkvæði á móti því.