07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

131. mál, þegnskylduvinna

Pétur Ottesen:

Hv. þm. V.-Ísf., frsm. landbn., hefur nú gert grein fyrir afstöðu n. til þessa máls og því, að n. tók þetta mál til flutnings. Ég þarf þess vegna engu við það að bæta. Eins og hv. frsm. lýsti og um getur í grg., er frv. nokkuð breytt frá því, sem n. barst það, og fól nefndin hv. þm. V.-Ísf. að gera nokkrar breytingar á frv. og færa það til þess horfs, sem er nær því fyrirkomulagi, sem talað hefur verið um að undanförnu, að framkvæmd þegnskylduvinnu hér á landi skyldi verða reist á.

En ástæðan til þess, að ég vildi segja nokkur orð í sambandi við þetta mál, er sú, að það er sennilega fyrir tilhlutun mína og tveggja annarra þm., hv. 1. þm. Rang. (SvbH) og hv. 3. landsk. (StSt), að þetta frv. er nú borið fram. Á síðasta þingi fluttum við þessir 3 þm. þáltill. um undirbúning þjóðaratkvgr. um þegnskylduvinnu. Þessi þáltill. er stutt og langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana hér upp: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera fyrir næsta þing till. í frumvarpsformi um framkvæmd þegnskylduvinnu hér á landi, í því skyni, að almenningur geri sér ljósari grein fyrir þessu nýmæli, ef næsta þing ályktar að láta fram fara þjóðaratkvgr. um málið í sambandi við reglulegar kosningar til Alþ. á árinu 1941.“

Við flm. þáltill., sem erum allir fylgjandi þeirri hugsjón, sem liggur á bak við þegnskylduvinnuna, teljum, að það sé heppilegt fyrir þjóðfélagið og mætti margt gott af því leiða, ef sá áhugi væri ríkjandi meðal fólksins í landinu, að það fyndi hvöt hjá sér til þess að inna slíkt fórnarstarf af hendi á meðan það er á bezta skeiði. Af þessu mætti margt gott leiða. En okkur er það ljóst, að til þess að málið lægi nokkuð skýrt fyrir öllum almenningi og væri sett fram þannig, að menn hefðu góða aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig þetta ætti að vera í framkvæmdinni, þá töldum við nauðsynlegt, að dreift hefði verið út meðal almennings áður en atkvgr. fór fram frv., þar sem lögð væru drög að því, hvernig framkvæmd þegnskylduvinnunnar væri hugsuð. Það er ekki vafi á því, að sú andúð, sem þessi hugmynd hefur mætt á undanförnum árum, á að einhverju leyti rót sína að rekja til þess, að menn hafa ekki gert sér skýra grein fyrir því, hvernig þetta yrði í framkvæmdinni í raun og veru. Þess vegna hefur þetta orðið miklu meiri þyrnir í augum margra manna, svo að þeir hafa tekið afstöðu gegn þeirri hugmynd, af því að þeir hafa ekki gert sér ljósa þessa hlið málsins. Þess vegna álítum við nauðsynlegt, að fyrir lægi skilgreining á því, hvernig þessi framkvæmd. væri hugsuð. Nú hefur hæstv. ríkisstj. látið búa til frv., sem er byggt upp á því að veita kaupstöðum og kauptúnum, og samkvæmt því frv., sem landbn. flytur nú, þá einnig sveitarfélögum í landinu, heimild til þess að koma á þegnskylduvinnu hjá sér, með samþ., sem frv. greinir. Með þessum hætti er komið hreyfingu á málið, lagður í stórum dráttum grundvöllur að framkvæmd þegnskylduvinnu og á það reynt, hver er hugur fólksins til þess að inna af hendi með þessum hætti fórnfúst starf í þarfir lands og þjóðar. Að þessu leyti nær þetta frv., sem hér liggur fyrir, alveg sama tilgangi eins og meining okkar flm. var. Nú vitum við náttúrlega ekkert um það, hvernig undirtektir þjóðarinnar verða um það að koma þessu máli í framkvæmd með þessum hætti. Hér hafa nú komið fram raddir um það, að fólkið mundi flytja úr þeim byggðarlögum, þar sem slíkar samþ. hefðu verið gerðar, til þeirra staða, þar sem um ekkert slíkt er að ræða. Ég ætla ekki að ræða slíkar hrakspár. En mér virðast ákvæði frv. um það, hve mikill meiri hluti eigi að vera fyrir hendi til þess að samþykkt nái staðfestingu, eigi að vera næg trygging fyrir því, að slíkri samþ. yrði ekki komið á, nema það hugarfar og sú þegnskaparhugsun og fórnarlund væru til staðar hjá fólkinu, sem vildi bindast samtölum til þess að leggja fram vinnu, sem ekki væri borguð í öðru en þeim verkum, sem unnin eru. En með samþ. þessa frv. stöndum við alltaf miklu nær því en áður að stíga fyllra spor í þessu efni síðar. Og það er von mín og trú, að það muni sýna sig, þó að það sé ekki tímabært nú að setja 1., sem fyrir skipa þegnskylduvinnu hér á landi, að hugsunarhátturinn muni breytast í þessu efni og því að leita fyrir sér um þetta mál og fá meiri reynslu en nú er fyrir hendi, til þess að sjá, hvort sú grundvallarhugsun verður nægilega rík með þjóðinni, sem hugmynd þegnskylduvinnunnar er reist á. Og þetta er leiðin til þess að skoðanir manna komi fram í dagsins ljós. Þess vegna, hvernig sem menn kunna að líta á þegnskylduvinnuhugmyndina, hvort sem þeir eru sammála mér, því sem ég hef sagt nú, eða líta á það á gagnstæðan hátt, get ég ekki skilið annað en að hv. þm. verði með því að samþ. slíkt frv. sem þetta, sem til þess er flutt að kynna fólkinu og upplýsa það um það, hvernig þegnskylduvinnan yrði í framkvæmd í landinu.

Þegnskylduvinnuhugsjónin er sem sé byggð upp á þrem aðalmáttarstólpum. Í fyrsta lagi, er hún ætluð sem liður í uppeldisstarfsemi þjóðarinnar. Í öðru lagi, að nánara samband og tengsl fáist milli landsmanna, sem annars vinna að framkvæmd óskyldra verkefna, og ég álít, að sá þáttur þegnskylduvinnunnar sé mjög mikils virði fyrir okkur Íslendinga, og þá ekki síður í sambandi við þá breyt., sem hefur farið ört vaxandi á síðari ár um, að mikill meiri hluti þjóðarinnar lifir í kaupstöðum og kauptúnum, og margt fólk á lítinn kost á að kynnast þeim kringumstæðum, sem fólkið lifir við í hinum dreifðu byggðum landsins, og þeirri lífsbaráttu, sem þar er háð.

Þriðja atriðið er í því fólgið, að fólkið lærir þarna ýmis vinnubrögð, sem það undir öðrum kringumstæðum mundi fara á mis við að læra, en er mikilsvert fyrir það að hafa átt kost á að kynna sér og taka þátt í og kunna að meta hjá þeim borgurum, sem þessi verk vinna.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram og sérstaklega með tilliti til þess, að ég átti nokkurn þátt í því, að þáltill. um þetta efni var flutt á síðasta þingi, sem hefur orðið þess valdandi, að nú er kominn skriður á málið.