07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

131. mál, þegnskylduvinna

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi mega vænta þess, að hv. landbn. tæki til athugunar fyrir 3. umr., hvort hún sæi sér það fært að gera breyt. á þessu frv. frá því, sem það nú er: Ég veit, að það er rétt, sem komið hefur fram hér, að það hefur borið talsvert á því hin síðari ár, að hugmyndinni um þegnskylduvinnuna hefur vaxið fylgi. Og þetta er ákaflega eðlilegt, þegar fyrst og fremst er lítið til þess atvinnuleysis fyrir ungt fólk, sem var þangað til Bretavinnan kom til sögunnar. Og það var fullkomlega eðlilegt, að menn litu til þegnskylduvinnunnar, þegar hundruð eða þúsundir unglinga áttu engrar atvinnu von og höfðu ekki ástæður til þess að afla sér menntunar.

Nú er í bili ástandið breytt frá því, sem þá var, en allir væntum við, að það ástand, sem nú er, taki enda innan skamms, og getum við þá þurft að leysa þau vandamál, sem áður voru fyrir hendi. Því finnst mér ekki rétt að vísa þessari hugmynd á bug. Síður en svo. Þá þarf að gera sér ljóst, hvort af tvennu vakir fyrir mönnum, hvort litið er á þetta sem lið til uppeldis þjóðarinnar, eða hvort þetta er til þess að komu í framkvæmd verkum, sem of dýrt þykir fyrir hið opinbera eða einstaklinga að vinna á annan hátt. Þ. e. a. s., hvort þegnskylduvinnan á að vera liður í uppeldisstarfsemi okkar eða til þess að spara fé. Mér finnst það eigi að liggja skýrt og greinilega fyrir, hvort af þessu tvennu verður megintilgangur 1.

Ég vil benda á, að ég tel, að samkv. 2. gr. sé bæjarstjórnum og hreppsfundum gefið of mikið vald, því að þar er gert ráð fyrir, að til funda í bæjarstjórnum og hreppsfunda um þegnskylduvinnu skuli boða með hálfs mánaðar fyrirvara og þurfi 3/5 hluta atkvæða til samþykktar og sú samþykkt öðlist gildi, þegar ráðherra hefur staðfest hana. Ég verð að segja, að mér finnst hér vera of langt gengið. Ég get betur fellt mig við ákvæði þess frv., sem hæstv. forsrh. lagði fyrir n. Þar er lagt til, að málið skuli tekið upp, ef nokkur hluti hreppsnefndar eða bæjarstjórnar óskar þess eða minnst 1/5 hluti verkfærra karlmanna innan umdæmisins, og sé henni þá skylt að kveðja til almenns fundar alla heimilisfasta verkfæra karlmenn á aldrinum 18–60 ára og leggja undir atkvæði þeirra tillögu um, að þegnskyldu skuli komið á. Fundur um þegnskylduvinnumálið sé boðaður með tveggja vikna fyrirvara og sé verkefni fundarins auglýst í fundarboði. Ef minnst 3/5 hlutar þeirra manna, er vinnuskyldir eru, greiða atkvæði með tillögu um þegnskylduvinnu innan þeirra takmarkana, sem lög þessi heimila, er samþykktin orðin bindandi, enda veiti landbúnaðarráðherra henni samþykki sitt. M. ö. o., hér er ákveðið, að meiri hluti þeirra verkfærra karlmanna, sem búa í því umdæmi, þar sem á að leggja kvöðina á, skuli vera henni samþykkir. Ég fékk ekki í ræðu hv. frsm. skýringu á því, hvers vegna horfið var frá þessu mjög svo þýðingarmikla ákvæði í frv. hæstv. forsrh. og inn á þá breyt., sem gerð var á frv. eins og það var lagt fram. Ég vil skjóta því til n., hvort hún sæi ekki ástæðu til fyrir 3. umr. að athuga, hvort ekki væri rétt að færa þetta í svipað horf og upphaflega var í frv. hæstv. forsrh.

Í 5. gr. þess frv., sem hæstv. forsrh. sendi n., er glögglega tekið fram, að skylt skuli að hagnýta vinnuna til sameiginlegrar jarðræktar í almenningsþágu. Hins vegar er í 5. gr. frv. eins og n. hefur lagt það fram, svo kveðið á, að í þegnskylduvinnu megi vinna að hverju því verkefni, er til framfara horfir eða almenningsheilla, svo sem hvers konar jarðrækt, vegagerð, skógrækt, sundlauga- og leikvallagerð, skólahúsbyggingum o. fl. Hér er það ekki gert að skilyrði, að vinna skuli að sameiginlegri jarðrækt í almenningsþágu. Mér skilst, að ekki sé útilokað, að þessi þegnskylduvinnunefnd — geti látið vinna að jarðrækt jafnvel fyrir einstaklinga og einkafyrirtæki, en í frv. hæstv. forsrh. var skýrt tekið fram, að það skyldi vera sameiginleg jarðrækt í almenningsþágu. Ég get ekki séð, að vert sé að hverfa frá þessu þýðingarmikla atriði í frv. eins og það var upphaflega.

Ég mun greiða atkv. með málinu til 3. umr., en vil mjög vænta þess, að n. sjái sér fært að athuga frv., sérstaklega þessi tvö atriði sem ég hef nú nefnt.