07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

131. mál, þegnskylduvinna

Jóhannes Jónasson:

Það á að vera eins og til að afsaka þetta frv., að formælendur þess leggja mikla áherzlu á að sýna fram á, að þessari þegnskylduvinnu verði hvergi komið á nema þar, sem einlægur vilji sé fyrir hendi. Nú er mér spurn og þó ekki: Hverjir eru það sem eiga að kveða á um það, hvort þegnskylduvinnan skuli lögð á eða ekki? Það eru hreppsnefndir og bæjarstjórnir. Eru það þá aðilarnir sjálfir, sem eiga að segja til um það? Ég hygg, að svo sé ekki. Í frv. er aldurstakmarkið sett 16–25 ár. Þar af leiðir, að fátt þeirra manna, sem koma til með að búa við þegnskyldukvöðina, getur haft nokkur áhrif um það, hvort þessi vinna verður tekin upp eða ekki. M. ö. o. þeir, sem eiga að búa við árangurinn af þessu frv., geta lítil eða engin áhrif haft á málið.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að því miður væri þjóð okkar ekki nógu vel efnuð til að inna af höndum svo miklar framkvæmdir í jarðrækt, vegagerð og öðrum þörfum opinberum framkvæmdum sem skyldi. En þá er mér spurn: Eru þeir unglingar, sem hér koma til með að eiga hlut að máli, það efnaðir, að þeir megi fremur við að eyða tímum sínum og kröftum til þess? Ef á að fara eftir efnum í þessu sambandi, þá liggur miklu nær að koma með frv. til heimildarlaga um það, að einmitt hinir efnuðu menn í landinu skuli inna ef hendi slíka þegnskylduvinnu, án nokkurs aldurstakmarka, en miðað við eignaupphæð.

Annars hefur ekkert verið hrakið af þeim rökum, sem ég bar fram í frumræðu minni, og þarf ég því ekki að lengja þessa ræðu meir.