07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

131. mál, þegnskylduvinna

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi víkja örfáum orðum að nokkrum þeim atriðum, sem fram hafa komið í þessum umr., sér í lagi því, sem fram kom í ræðum hv. 4. þm. Reykv. Hann mun nú hafa fullnotað sinn ræðutíma við þessa umr., en ég vænti þess, að þetta frv. fái að fara áfram, og getur hann þá við 3. umr. málsins gert aths. við þau fáu orð, sem ég nú flyt hér, ef hann sér ástæðu til.

Hv. þm. sagði í sinni fyrri ræðu, að land okkar byggi yfir miklum auðæfum, og mér virtist koma fram í ræðu hans það álit, að þess vegna þyrfti enginn hér að gera neitt nema fyrir full laun í peningum. Ég vil segja það, að ef allir landsmenn verða einhvern tíma á þessari skoðun, þá er þjóðin á vegi til grafar. Öll þau verk, sem varanlegast gildi hafa fyrir land og þjóð, hafa verið unnin án þess að spurt væri um laun fyrir þau. Sagnaritarar fyrr á öldum, höfundar þeirra bókmennta, sem mestum ljóma hafa varpað á þjóðina og eru hennar dýrmætasta eign, unnu verk sín án þess að spyrja um laun og án þess að taka laun fyrir. Einmitt fyrir það, að þeir unnu verk sín í þessum anda, hafa verk þeirra og nöfn lifað. Það er eins og eitt af okkar mestu skáldum hefur sagt:

„Að reikna ekki í árum, en öldum

og alheimta' ei. daglaun að kvöldum,

svo lengist mannsævin mest“.

Hv. 4. varaþm. Reykv. er skáld. Það hefur að sjálfsögðu verið nokkur ágreiningur um verk hans á því sviði eins og ýmissa annarra, en að mínu viti hefur hann ort mörg góð ljóð. Hann hefur fengið einhverja opinbera viðurkenningu sem skáld, en þó geri ég ráð fyrir, að hann hafi ekki fengið taxtakaup fyrir allan þann tíma, sem hann hefur varið til ljóðagerðar. Hann hefur að sjálfsögðu fleira gert um ævina, hefur eins og við fleiri alizt upp við smalamennsku og önnur venjuleg sveitastörf, og sjálfsagt eftir að hann varð fullorðinn oft unnið daglaunavinnu og fengið sitt samningsbundna kaup. En þó að hann hafi sjálfsagt unnið vel við þau störf, verða það ekki þau, sem geyma nafn hans, heldur munu það verða þau ljóð, sem hann hefur ort og ekki tekið laun fyrir, a. m. k. ekki full laun eftir taxta verkalýðsfélaganna.

Ég varð satt að segja fyrir nokkrum vonbrigðum, þegar ég heyrði fyrstu ræðu hans á Alþingi, því að mér þykir þær kenningar, sem þar komu fram, allt annað en skáldlegar, og sem betur fer hefur hann ekki lifað eftir þeim kenningum sjálfur, því að eins og ég gat um áðan, tel ég, að hann hafi ort mörg góð kvæði og það hefur hann gert án þess að spyrja um laun.

Ég held, að þetta frv. sé spor í rétta átt. Ég held, að það sé heppilegt að byrja á þennan hátt að veita heimild, sem þeir geta notað, sem það vilja, og ég geri mér von um, að þetta verði vinsælt og leiði til þess, að fleiri taki það upp, eftir því sem meiri reynsla fæst af þessum framkvæmdum, og verði með tímanum þannig, að sem flestir noti þessi heimildarl., hvort sem það leiðir til þess, að sett verði allsherjarlöggjöf um þegnskylduvinnu eða ekki.