26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég hef orðið þess var, að sumir hv. þm. hafa látið nokkra undrun í ljós út af því, að ég hef gerzt meðflm. að brtt. um að hækka lítils háttar styrk til vega á Vestfjörðum, af því að það er ekki líklegt, að það skipti miklu fyrir mitt kjördæmi. Það má nú segja, að svo sé. En ég sannfærðist af þeim rökum, sem lögð voru fyrir mig um það, að þessir vegir hafa orðið út undan. Og það er almennt viðurkennt, að Vestfirðingafjórðungur hafi orðið nokkuð mikið út undan um framlög vegafjár á undanförnum árum. Þess vegna vildi ég nú greiða fyrir því máli eins og öðrum málum, sem mér þykir eiga rétt á sér.

Annars, þegar talað er um vegi, þá vil ég taka það fram, að mér fannst hv. fjvn. ætla mínu kjördæmi nokkuð lítið af því fé, sem inn kæmi af benzínskatti, þar sem því eru ættaðar aðeins 3000 kr. af þeim skatti. Og hef ég leyft mér að leggja fram brtt. um að hækka það upp í 6000 kr. Er þó með þeirri till. ekki farið lengra en svo, að það nemur tæplega þeim hluta benzínskattsins, sem eftir notkun benzíns í Vestmannaeyjum ætti að réttu lagi að koma í þeirra hlut af því fé. Skal ég ekki fjölyrða um það frekar., en með tilliti til þess, sem annars er varið hér til vega, finnst mér ekki ósanngjarnt, þó að hér sé farið fram á þessa litlu viðbót.

Auk brtt. á þskj. 638, þar sem talað er um Vestmannaeyjaveg, að fyrir 3000 kr. komi 6000 kr., þá hef ég farið fram á, að hækkað yrði tillag til Vestmannaeyjabókasafns og það gert hliðstætt bókasafni Hafnarfjarðar. Það er hér önnur brtt. á ferð um hækkun styrks til bókasafns á Siglufirði. Sá hv. þm., sem mælti fyrir henni, bar fram þau rök, sem eru jafngild um bókasafnið í Vestmannaeyjum. Það er líkt ástatt um bókasafnið á Siglufirði og bókasafnið í Vestmannaeyjum. Og að því leyti, sem þessi bókasöfn snerta aðra landsmenn, eru enn þá meiri rök fyrir því að styrkja það bókasafn, sem er í Vestmannaeyjum, því að það er vitanlegt, að þó að á Siglufirði sé um sumartímann ekki líklegt, að tíminn sé mikið notaður til lestrar, þá er það þó svo, að þar koma oft landlegudagar, og því gott, að sjómenn geti horfið að því að ná í góðar bækur, þegar þeir hafa tíma til lestrar, frekar en að gera sumt annað. Og sama má segja um Vestmannaeyjar. Þar eru verkamenn á vetrarvertíðinni, fyrir utan heimilisfólk, og þetta aðkomufólk notar bókasafnið mikið og hefur til þess enn þá meiri tíma heldur en þeir, sem stunda sjó frá Siglufirði á sumrin. Meðfram vegna þessa og líka til þess að hafa nokkurt jafnrétti með þessum bókasöfnum, hef ég leyft mér að fara fram á, að sams konar hækkun verði gerð á framlagi til Vestmannaeyjabókasafns eins og farið er fram á til Siglufjarðarbókasafnsins og það verði gert hliðstætt við bókasafnið í Hafnarfirði.

Ég hef nokkrum sinnum bent á það hér á Alþ., að landeigna í Vestmannaeyjum, sem enn eru í eigu ríkisins, þyrfti að gæta fyrir skemmdum, og þar þyrfti ríkssjóður að gæta sinna hagsmuna og þeirra, sem á jörðunum búa. Þess vegna hef ég lagt til, að nokkru af tekjum af þessum jörðum yrði varið til varnar landbroti af völdum sjávar á Vestmannaeyjajörðum.

Þetta mál fékk talsverða áheyrn um tíma, og var nokkuð unnið að þessu. En ekki hefur fengizt samþykkt Alþingis fyrir þessu. Síðan hefur hæstv. ríkisstj., án þess að samþ. hafi verið á fjárl. fyrir því, styrkt þetta verk dálítið, þó ekki nægilega. En hér er um að ræða allmikið verk, sem verður að vinnast á allmörgum árum, að verja austurströnd Eyjanna fyrir sjávargangi. Tel ég engum skyldara að gera það heldur en þeim, sem landið á. Og að verja einhverju fé til þessa er nauðsynlegt, og finnst mér þá ekki óeðlilegt að verja til þess einhverjum hluta afjarðarafgjöldunum í Vestmannaeyjum. Fjárl. hækka tölulega ekkert við þetta, og það er líka lagt á vald hæstv. ríkisstj., hve miklu hún ver í þessu skyni. Finnst mér sanngjarnt, að hv. Alþ. féllist á að setja heimild í 22. gr. fjárl. eins og hér er farið fram á til þessa verks.

Ég hef séð, að ýmsir af þeim, sem hafa verið við matsstörf á fiski eða lýsi eða öðru slíku, hafa fengið lítils háttar styrk sem nokkurskonar eftirlaun hjá ríkinu, þar á meðal Guðlaugur Hansson. Hann hefur um tíma fengið 200 kr. styrk á ári fyrir margra ára starf í þessu efni. Af því að mér finnst þetta nokkuð lítið og af því að í fæstum tilfellum er nú gert ráð fyrir, að slíkir menn fái minna en 300 kr. styrk, hef ég borið fram brtt. um að hafa þennan mann á svipuðum fæti og aðra matsmenn. Hann hefur fulla þörf fyrir það hann er nú hniginn mjög á efri ár og er tekjulítill eða tekjulaus að öðru leyti. Fyrir utan það, að hann hefur verðleika til að bera til þess að eiga sama rétt á þóknun frá ríkinu fyrir unnin matsstörf eins og aðrir, þá hefur hann verið mikið riðinn við opinber störf, án þess að bera neitt úr býtum fyrir. Vona ég, að hæstv. Alþ. geti fallizt á þessa litlu hækkun.

Ég vil ekki gera að umtalsefni aðrar brtt., sem hér eru fram komnar. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði um endurbætur á prestssetrum landsins. Ég tel það mjög vel til fallið, að hv. fjvn. hefur hafizt handa í þessu efni, því að þess mun full þörf. Og kjör sveitapresta eru að öðru leyti ekki það góð, að þeim verði neitt ofbætt, þó að þessari fjárhæð eða einhverri líkri sé varið til þess að bæta íbúðarhús þeirra.