12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

131. mál, þegnskylduvinna

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætla ekki að ræða um þegnskylduvinnuna, hvorki með eða móti, sem er mál, sem út af fyrir sig á vafalaust einhvern rétt á sér fyrr eða síðar í einhverri mynd. Hins vegar er það mín óbifanleg skoðun, að hvenær sem sú stefna verður tekin upp að koma slíku fyrirkomulagi á, þá á að gera það aðeins þannig, að fyrir því sé samþ. meiri hl. landsmanna. — Slíkt mál sem þetta er mikið tilfinningamál. Og það væri verr farið en heima setið að knýja í gegn löggjöf, sem yfirleitt mikill meiri hl. af landslýðnum væri andvígur, hvað sem liði skoðunum okkar hér á Alþ.

En það er ekki þessi hlið málsins, sem ég ætlaði að tala um, heldur í hvaða n. þetta mál ætti að ræðast, því að sennilega þarf einhverjar breyt. á frv. að gera. Þetta mál er í mínum augum nokkurs konar skólamál, en ekki sérstaklega landbúnaðarmál. Eins og 1. þessi eru hugsuð, ná þau jafnt til sjávar sem sveita. Mér hefur því dottið í hug, hvort þetta mál ætti ekki eins og önnur skólamál að heyra undir hv. menntmn. (BSt: Það er alveg rétt, þetta er uppeldismál.) Þetta er uppeldismál að vissu marki, þó að í þessu frv. felist nokkuð annað og meira. Ég vil gera það að till. minni, að þetta mál fari til hv. menntmn.