26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög

Einar Árnason:

Það var hér snemma á þinginu, sem við nokkrir þm. bárum fram þáltill. í sameinuðu þingi um að hraða byggingu Siglufjarðarskarðsvegar. Þessi þáltill. hefur nú ekki enn verið tekin til umr. Og nú er komið að þinglokum, svo að það er nokkurn veginn séð, að sú þáltill. kemst tæplega til þeirrar meðferðar á þinginu, að maður geti búizt við því, að nokkur árangur fáist af flutningi hennar.

Út af því, að svo hefur nú farið um þessa þáltill., höfum við þessir sömu þm., sem fluttum þáltill., nú borið hér fram brtt. við fjárl. á þskj. 638 um framlag ríkissjóðs til byggingar Siglufjarðarskarðsvegar.

Það eru nú liðin 6 ár síðan byrjað var á þessum vegi yfir skarðið, og það er búið að leggja þar á annað hundrað þús. kr. í þennan veg. En þó er hann ekki enn kominn nema hálfan hlutann af leiðinni frá Siglufirði að Hraunum í Fljótum. Og þar að auki mun þurfa um 100 þús. kr. til þess að framlengja veginn til þess að hann geti komizt í það vegasamband, sem nú er frá Skagafirði, og er þessi framlenging vegarlagningin frá Hraunum að Brúnastöðum. Það er því einsætt, að ef ekki er lagt meira fé til þessa vegar árlega heldur en á undanförnum árum, þá mun það taka tvo tugi ára að leggja þennan veg. Það er nú svo um þennan veg, að þó að hann sé ekki mjög langur, þá mun þarna vera eitthvert hið örðugasta vegarstæði, sem byrjað er að leggja veg um hér á landi, svo að vegurinn hlýtur að verða ákaflega dýr. En þar sem mikil nauðsyn er á því fyrir Siglufjarðarbæ — og í raun og veru allt landið — að koma Siglufirði í vegarsamband við aðra hluta landsins, þá er það ákaflega óhyggileg fjármálapólitík að geyma fé í þessum vegi, áður en hægt er að nota hann. Við höfum því lagt til, að í staðinn fyrir það, sem ætlað er á fjárl. til vegarins, verði framlagið hækkað úr 25 þús. kr. upp í 100 þús., og að það verði fyrsta greiðsla af fimm, sem lagðar verði fram á næstu árum. Jafnvel þótt lagðar verði til 100 þús. kr. á ári í fimm ár, mun vanta eitthvað enn til þess að vegurinn geti orðið fullgerður alla leið. En þegar svo er komið sem hér er ætlazt til, að 500 þús. kr. eru komnar í veginn, þá er von um, að hægt sé að nota hann eitthvað, með því að ryðja suma kafla. Við flm. væntum þess, að Alþingi sjái, að það er ákaflega mikil nauðsyn á því að hefjast nú þegar handa til að hrinda þessu máli áfram, svo að framkvæmdirnar geti farið að koma að einhverju gagni. Það er óhugsandi, að hægt sé að una við það, að það gangi tugir ára til að fullgera þennan veg.

Ég skal svo snúa mér að brtt., sem ég flyt einn á sama þskj., og er brtt. við till. fjvn. á þskj. 594. Fjvn. leggur til, að Jóni Engilberts listmálara verði veittar 15 þús. kr. til húsbyggingar. Það er síður en svo, að ég vilji verða meinsmaður þess, að Jón Engilberts fái þetta lán. Heldur álít ég, að allt réttlæti mæli með því, að annar listmálari einnig, Eggert Guðmundsson, gæti komið til greina á sama hátt og fái 10 þús. kr. lán í sama skyni. Eggert Guðmundsson listmálari — hefur sótt til þingsins um 10 þús. kr. aðstoð til að koma sér upp húsnæði, en það hefur nú verið daufheyrzt við þeirri beiðni. En mér er persónulega kunnugt, að þessi maður er svo á vegi staddur nú, að hann getur hvergi nokkurs staðar fengið húsnæði til að vinna í, og hann er því algerlega útilokaður frá því að geta unnið að málaralist sinni. Sjá allir, að það er ómögulegt fyrir þennan mann að halda uppi sínu heimili með því að vera útilokaður frá að stunda sína list, sem er líka hans atvinna. Eggert Guðmundsson er mjög þekktur sem málari. Hann hefur haft málverkasýningar bæði erlendis og hér í Reykjavík og hlotið lof fyrir mörg af sínum málverkum. Þessi maður er þannig gerður, að hann er hlédrægur og óframfærinn, sækir ekki fast það, sem honum er þó nauðsyn á að fá. Því er hætt við, að hann verði kannske settur aftur fyrir þá, sem annars sækja nokkru fastar róðurinn um að koma sínu máli fram. Ég vil vona, að hv. alþm. sjái, að það er ákaflega mikil sanngirni og réttlæti, að þessum mönnum báðum verði veitt lán. Ég hygg, að það sé fyrirhugað hjá þessum tveimur listamönnum, ef þeir fá báðir slíka hjálp, að byggja í félagi, sem verður þeim vafalaust eð einhverju leyti ódýrara.

Ég hef ekki leitað mér liðs um þessa till. Ég byggi a því, að hv. þm. sjái að hér er aðeins farið fram á sanngirni, að hjálpa slíkum manni í þeim vandræðum, sem hann er nú í. Fleiri till. hef ég ekki flutt, en vænti, að þessar fái hlýlegar viðtökur hjá hv. þm.