13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

69. mál, jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins segja nokkur orð út af brtt. landbn. og fyrst geta þess, að það er mikill misskilningur hjá flm.till. á þskj. 477, ef þeir hafa litið svo á, að samkv. ákvæðum frv. eins og það kom frá Ed. hefði viðkomandi hreppur ekki átt að fá bætur fyrir eignarnám. Vitanlega hefði ekki komið til mála að gera slíkt án bóta, enda hefur það komið skýrt fram í meðferð málsins í Ed. Bætur fara fyrst og fremst eftir samkomulagi, en náist það ekki, þá eftir mati dómkvaddra manna. Brtt. á þskj. 477 er því í raun og veru að þessu leyti engin breyt. á frv. En hér er brugðið út frá þeirri venju, að þegar um er að ræða, að ekki hefur fengizt samkomulag um hreppaskipti, hefur alltaf verið hafður sá gangur á, að það hefur verið borið fram sérstakt frv. um þetta á Alþ. En Alþ. hefur farið varlega í að setja slík l. fyrr en fullreynt væri, hvort ekki væri hægt að leysa málin heima fyrir með samkomulagi.

Þá vil ég vekja athygli á því, að þrátt fyrir það, þó að heimilað sé að taka land eignarnámi af einstökum mönnum, gegnir nokkuð öðru máli hér. Sú eignarnámstaka tekur bara til þess manns, er landið á. En hér bætist það við, að taka má land frá einum hreppi og leggja til annars. Það er því um tvenns konar tilfærslu að ræða, og því tvöföld ástæða til, að allrar varkárni sé gætt. Að vísu eiga bætur að koma til þess hrepps, sem landið er tekið af, en þær bætur eru miðaðar við það ástand, sem ríkir er eignarnámið fer fram. En orðið getur mikil og skjót breyt. á verðmætum, og er þá opin leið til ranglætis á annan hvorn bóginn.

Ég vil eindregið mælast til þess við hv. d., að hún geti fallizt á að láta gildandi reglur vera áfram. Þegar samkomulag næst ekki milli hreppsfélaga, verði skorið úr með löggjöf.

Ég vil enn fremur geta þess, að slíkt fyrirkomulag þarf ekki að hindra það, að hægt sé að fá land til ræktunar í viðkomandi hreppi, því að það er algengt, að menn kaupi land í öðrum hreppi án þess að breytt sé hreppamörkum. Ákvæði frv. um það eru óþörf.

Brtt. á þskj. 477 er í raun og veru engin efnisbreyt., heldur bara skýring á hinni sjálfsögðu hugsun í frv., en till. n. er, gerð til að færa þetta mál til samræmis við venju þá, sem gilt hefur lengi, og það er sjálfsagt að tryggja það, að þeirri reglu verði fylgt.