20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

69. mál, jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Við 2. umr. málsins hafði landbn. borið fram brtt. á þskj. 454. Hins vegar höfðu þá hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Ísaf. borið fram brtt. um sama efni á þskj. 477. Nú hefur landbn. borið fram nýja brtt. um þetta mál á þskj. 538, og mér skilst, að það muni verða samkomulag við hv. flm. brtt. á þskj. 477, ef þessi till. n. verður samþ., þá taki þeir sína till. aftur. Þá vil ég enn fremur geta þess, að n. lítur þannig á, að orðið „atvinnumálaráðherra “ í 2. málsgr. skuli heldur vera „ráðherra“, og þá yrði það sá ráðherra, sem færi með þessi mál á hverjum tíma. Við vitum það, að verksviðin skiptast nokkuð upp og ofan, eftir að ráðherrunum fjölgaði, og er eðlilegast, að sá ráðh., sem hefur yfirleitt með þessi mál að gera, hafi einnig umsjón með þessari hlið þeirra.

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort honum finnist þörf á sérstakri brtt. um þetta atriði, eða að hann skoði þetta næga leiðréttingu á frv.