03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Sveinbjörn Högnason:

Það er bersýnilegt, að sumir nm. þurfa á fræðslu að halda um þetta,

eins og t. d. hv. þm. V.-Ísf., og mér finnst því ótækt að vera að taka málið út af dagskrá, fyrr en hann hefur fengið fræðslu í því. Ég vil því reyna að gefa honum bendingar um þetta. Mér finnst fáránlegt, þegar hv. þm. heldur því fram, að ekki sé dýrara að senda nemendur í heimavistarskóla heldur en að þeir sæki skólann heiman að frá sér. Þeir munu vera fáir eða alls engir, sem geta tekið undir þetta með hv. þm., að ekki sé dýrara að senda börnin sín burtu til náms. Þetta er svo mikil fjarstæða, því vitanlegt er, að það er sáralítill kostnaður að dvelja heima hjá sér og sækja skóla. Á þessu byggist einmitt brtt. mín við 8. gr. (a.).

Ef hv. þm. lítur svo á, að sveitamenn þekki alls ekki til þessa máls, þá er því til að svara, að ég bý í sveit og þekki þetta alveg fyllilega. Og fleiri þekki ég, sem er alveg ljóst, hversu geipilegur sá munur er að sækja skóla langt frá heimili sínu eða geta stundað hann heiman að. Skólarnir í kaupstöðunum eða þéttbýlinu geta tekið miklu fleiri nemendur, vegna þess að þeir þurfa ekki á heimavist að halda. Þar kemur því í ljós, hversu mikill munur er á því, hvað erfiðara er að reka heimavistar skólana. Skólarnir í þéttbýlinu hafa miklu meiri tekjur. Og eitt atriði mætti líka nefna í þessu sambandi, að í kaupstöðum getur kennsla verið mun ódýrari, og á ég þar við tímakennara, sem hægt er að fá til að kenna við skólana. Um þá er ekki að ræða í sveitunum. Þess vegna er fullt samræmi, að gjaldið verði 200 kr., en ekki 400 kr. Brtt. á einmitt að jafna þennan aðstöðumun, sem er á milli skóla í sveitum og kaupstöðum. Þá sagði hv. þm. V.-Ísf., að hann gæti gengið inn á 2. brtt. við 9. gr., ef í stað „heimavistargjalds“ kæmi: húsaleigugjald. — Ég man ekki betur en að í l. standi heimavistargjald. (ÁÁ: Hér stendur húsaleigugjald). Ég á við með heimavistargjaldi allan kostnað, húsnæði, ljós, og hita, og ef hv. þm. leggur sama skilning og ég í orðið, þá get ég gengið inn á, að orðið húsaleigugjald komi í staðinn. —- Það gerir hvorki til né frá. Um brtt., sem fellir niður fyrri málslið 10. gr., er það að segja, að mér finnst, að þeir, sem reka skólana og sjá, að húsaleiga er greidd af ríkinu til hálfs, muni freistast til að græða á þessu. Aftur á móti er ekkert því til fyrirstöðu að reka skólana í leiguhúsnæði um stundarsakir, á meðan ekki er búið að byggja og það er völ á húsnæði í sveitunum. Það þarf ekki að vera stórt. Jafnvel er hægt að nota stór íbúðarhús. Mér finnst, að það mætti fá undanþágu fyrir heimavistarskólann á Ísafirði frá því, sem brtt. fer fram á. — En ég vil ekki ýta undir, að skólar séu stofnaðir í leiguhúsnæði. Það er mikið fallvaltara fyrir framtíðina. –Sannleikurinn er, að ef ekki er eitthvað, sem stendur að baki þessari hreyfingu, þá er hætt við, að hún hjaðni fyrr en varir.