03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Hv. fyrri þm. Rang. vill bera á móti því, að eins dýrt sé að stunda skóla heiman að. Ég endurtek mína fullyrðingu um, að þetta sé ekki rétt. Ég ætla mér þó ekki að koma með neinar tölur hér.

Till. hv. þm. um helmingi lægri styrk er á engan hátt að skapa neitt samræmi í þessu. Ef hv. þm. vildi skapa samræmi, þá þyrfti hann að fara fram á sérstakan styrk til sveitastúlkna. Hitt er einnig rangt, að fleiri stúlkur séu í flokki í kaupstaðarskólunum. Venjulega eru þetta 12–18 stúlkur í flokki, svo flokkarnir kæmu bara til með að vera fleiri í kaupstöðunum.

Hvað viðvíkur tímakennurum, sem hv. þm. drap á, þá eru þeir alls ekki ódýrari en fastar kennslukonur í sveitum. Hv. þm. var með áhyggjur um, að skólarnir væru aðeins stofnaðir til bráðabirgða. Hér stendur, að ekki megi stofna skóla, nema fá veitt til þess fé í fjárl., og Alþingi eitt hefur vald til að úrskurða, hvort skólarnir eigi styrk skilið eða eigi.

Hv. þm. sagðist ekki vilja ýta undir að stofna skóla í leiguhúsnæði. Ég get sagt hv. þm., að flestir gagnfræðaskólarnir hafa verið stofnaðir á þann hátt. Ég vil benda á, að eins og ástandið er nú, þá er svo að segja útilokað, að hafizt verði handa um byggingar í kaupstöðunum, og húsaleiga er í samræmi við byggingarkostnað. Þó væri æskilegt, að byggt yrði sem fyrst.

Um þetta mál þarf aðeins atkvgr., og ég sé enga ástæðu til að fresta því.