03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Finnur Jónsson:

Þegar frv. um húsmæðrafræðslu í sveitum lá fyrir Alþ., þá var því tekið með afbrigðum vel bæði í Nd. og Ed. og lofað, að á næsta þingi skyldi lagt fram frv. til 1. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Þetta hefur dregizt, og menn biðu eftir þessu í þrjú ár. Nú þegar frv. liggur hér loksins fyrir, þá rís einn þm., hv. fyrri þm. Rang., hér upp og reynir að spilla þessu á allan hátt. — Hv. þm. V.-Ísf. hefur sýnt fram á, að hann hafi rangt fyrir sér og sé í stað samræmis að skapa hér ósamræmi. — Hv. 1. þm. Rang. hefur sagt, að ef þetta næði fram að ganga, þá mættu hverjir, sem vildu, stofna húsmæðraskóla í kaupstöðum, ef aðeins bæjarstjórn samþ. það. — En í 10. gr. stendur í niðurlagi fyrra málsliðs : „enda samþykki fræðslumálastjórnin húsnæði og leigumála“. Með öðrum orðum, þá er það ekki komið undir bæjarstjórn, hvort skóli verði stofnaður, heldur undir kennslumálarh., sem er yfirmaður fræðslumálastjóra.

Hv. fyrri þm. Rang. heldur því fram, að hann sé að leita að réttlæti„ en mér virðist hann furðulega fundvís á röng rök fyrir röngum málstað. Mér virðist hv. þm. álíta, að ef frv. yrði samþ., þá muni menn freistast til að reka skólana til þess að græða á ríkinu. — Ég skal ekki segja um, hvað menn eru fundvísir á að afla sér fjár, en hingað til hefur það ekki verið álitinn gróðavegur að reka skóla. Mér er vel kunnugt um, að kvenfélagið á Ísafirði, sem hefur rekið húsmæðraskólann þar í 20 eða 30 ár í leiguhúsnæði, að það hefði fyrir löngu reist sitt eigið hús, ef það hefði getað. Ástandið er þannig nú, að litlar líkur eru til, að hægt sé að byggja núna hús fyrir húsmæðraskóla, þó að þessi l. yrðu samþ.Till. hv. 1. þm. Rang., ef hún yrði samþ., er því aðeins til að tefja fyrir húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Mér er kunnugt um, að mikill hluti þjóðartekna fer í gegnum hendur kvenna, og þess vegna er enn meiri ástæða til að efla þekkingu þeirra.

Till. hv. fyrri þm. Rang., jafnvel þó að hann af góðsemi sinni vildi taka húsmæðraskólann á Ísafirði undan, yrði því aðeins til að tefja fyrir og ganga á gömul loforð, sem gefin voru hér á Alþingi, um að afgreiða sem fyrst l. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum.