05.05.1941
Neðri deild: 51. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Bjarni Bjarnason:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð um þessa brtt. Það hefur verið viðurkennt og liggur fyrir með margra ára starfsemi, að það sé mjög auðvelt fyrir bæjarfélög að koma í framkvæmd svona verkum eins og t. d. skólastofnunum. Það er ómögulegt að neita því, að peningamagnið er nú meira og rýmra um ýmsar slíkar framkvæmdir en hefur verið, og ég hefði talið, að það hefði verið skynsamlegra fyrir framgang þessara mála, og þá sérstaklega húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, að þessu hefði ekki verið blandað saman á þessu stigi málsins.

Við hefðum getað afgreitt nú í dag þetta frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum eins og það liggur fyrir og látið till. menntmn. ráða, hvort það, sem útbýtt er í dag, yrði samþykkt eða ekki.

Það er til tafar þessu máli um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum að koma með þessar till. Náttúrlega dettur mér ekki í hug að gera ráð fyrir því, að flm. breyti ákvörðun sinni, úr því að hann kom með þessa till., en ég hefði viljað, að hv. deild afgreiddi málið á þeim grundvelli, sem það hefur legið fyrir.