21.05.1941
Efri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Af því að það hefur verið talað um undirbúning þessa frv. við þessar umr., þá get ég upplýst það, að skrifstofustjóri í stjórnarráðinu hefur undirbúið frvr. og hafði til hliðsjónar 1. um húsmæðraskóla í sveitum, og er því þetta undirbúið af þeim manni, sem var einna kunnugastur þeim málum og varð til þess að endurskoða l. um húsmæðraskóla í sveitum og ganga frá þeim, eins og þau eru nú, og hefur varið nokkrum tíma til þess. Og vitanlega á matreiðslukennsla, hvort sem er í sveit eða kaupstað, að vera svipuð, og þess vegna er ekki undarlegt, þó að sveitaskólarnir séu teknir til fyrirmyndar, því að þeir eru að nokkru leyti á sama sviði, nema að því leyti er kemur til heimavistar. Satt að segja verð ég að viðurkenna það, að þetta hefur vitanlega mikinn aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð að stofna til slíkra skóla, og það er ekki hægt að segja um það á þessu stigi málsins, hvort við höfum peninga til þess eða fjármagn að halda uppi þeirri fræðslu, sem við gjarnan vildum halda uppi í landinu bæði á þessu sviði og öðrum og leggja til menningarstarfsemi. En þó að nokkru sé varið af fjármunum til þess, þá hygg ég, að þeim fjármunum sé ekki verst varið af þeim peningum, sem Alþ. hefur varið til eins og annars, því að húsmæðrafræðslan í bæjum, og þá ekki sízt í Reykjavík, hefur verið okkur ákaflega mikið til vansæmdar. Og ég held, að um þá peninga, sem við leggjum fram til húsmæðrafræðslunnar, megi segja, að þeir séu lagðir á vöxtu, þannig að með því að kenna húsmæðraefnum að stjórna heimilum sínum yfirleitt, mundi sparast margur peningur, sem oft hefur farið fyrir lítið sökum vöntunar á þekkingu og hagsýni við matreiðslu og heimilishald yfirleitt. Það er því ekki, að hér sé aðeins um menningarmál að ræða, heldur og líka stórkostlegt þjóðfélags- og fjárhagsmál. Í sumum sveitum, þar sem húsmæðrafræðslan er minnst, er talið beinlínis, að þess gæti, að húshaldið sé þar óhentugt og dýrt. Og ég get rökstutt þetta með umsögn kaupfélagsstjóra víðsvegar um landið. Þó að við ráðumst í þetta, sem kostar mikið fé, þá var það fyrirsjáanlegt, að við gætum ekki látið húsmæðrafræðsluna sunnanlands vera eins og hún er nú. Því að það er mál, sem búið er að dragast allt of lengi að hrinda í framkvæmd, sem er fyrir þá sök, að hér í Reykjavík hafa ekki verið nægileg samtök til þess. Undirbúningur þessa máls er aðallega sá, að skrifstofustjóri í stjórnarráðinu hefur samið frv. og haft til hliðsjónar l. um húsmæðraskóla í sveitum, og konur, sem hafa áhuga fyrir þessu máli og hafa haldið uppi kennslu í þessum efnum hér, hafa endur skoðað frv. og gengið frá því eins og það nú liggur fyrir. Menntamenn í skólamálum hafa svo gert lítils háttar breyt. á frv. Ég sé ekki, að mikill ágreiningur sé um málið, þegar það hefur verið athugað. Mér virðist tilgangur skólans eftir brtt. og sjálfu frv. vera nákvæmlega sá sami. En það hefur verið réttilega á það bent, að í brtt. er það talið talsvert nákvæmar upp, hver sé tilgangur skólans, heldur en gert er í frv. En þó að talið sé upp fleira í brtt., svo sem þvottur og hreingerning, sem vitanlega tilheyrir heimilisstjórn, þá má alltaf ákveða nánar um það í framkvæmdinni með reglugerð.

Viðvíkjandi kostnaði, sem hér hefur verið rætt um, þá er það í frv. þannig, eins og hv. alþm. sjá, að það er gert ráð fyrir ákveðnu framlagi nemenda, án þess að nánar sé tiltekið um hlutföll milli ríkis og bæjar. En í brtt. eru tekin upp ákveðin hlutföll þess kostnaðar, sem ríkið á að greiða og sem bærinn á að greiða. Og þá er til þess ætlazt með brtt., að ríkissjóður leggi fram 3/5 hluta, en bærinn 2/5 hluta kostnaðar, og síðan er til tekið kennslugjald á nemanda, sem er það sama í brtt. og er í 8. gr. frv. Þetta mundi þá verða þannig, að ef þau framlög, sem ríkissjóður greiðir á hvern nemanda, yrðu meira en 3/5, þá losnar ríkissjóður við að greiða eitthvað af kennslugjaldinu. Þannig eiga þessir 3/5 að vera takmörkun í því, að kennslugjöldin, sem ríkissjóður greiðir, verði ekki óhæfilega mikill partur kostnaðarins við skólahaldið. En ég held, satt að segja, að það séu ekki miklar líkur til þess eða jafnvel engar líkur til þess, að kennslugjaldið nái því að verða 3/5 kostnaðarins við skólahaldið, og miða ég það við þann kostnað, sem hefur verið við þessa skóla. Hins vegar, ef kennslugjald frá ríkissjóði má verða 3/5 hlutar kostnaðarins, þá á ríkissjóður að bæta upp mismuninn, og þannig getur framlag ríkissjóðs orðið hærra eftir brtt. en eftir frv. En í síðustu málsgr. 8. gr. frv. er tekið fram, að bæjarsjóður beri ábyrgð á rekstri skólans, og þessi kennslugjöld eru þá það eina, sem ríkissjóður leggur fram vegna kostnaðar, og síðan sér bæjarsjóður um afganginn, hvort sem hann er meiri eða minni. Það má náttúrlega til sanns vegar færa, og vitanlega er það svo um framkvæmdir eins og þessa, að það er ekki hægt að fullyrða, að endilega sé réttara þetta eða hitt. Þessir skólar verða auðvitað að fá sína reynslu, og frv. er samið í mörgum atriðum eftir þeirri reynslu, sem fengin er í þessu efni.

Þá er það viðvíkjandi því, hvernig á að ganga frá því, þegar byggður verður húsmæðraskóli. Það má þá vitanlega segja, að þar sem ríkissjóður leggur fram meiri hluta af byggingarkostnaðinum, þá ætti hann að hafa meira með það að gera, hvernig frá skólanum er gengið. En þetta er byggt á því í frv., að í raun og veru er það bæjarsjóður, sem rekur skólann með þessu ákveðna gjaldi frá ríkinu á hvern nemanda. En bæjarsjóður ber, samkvæmt frv., alla ábyrgð á rekstri skólans, en er óheimilt að taka kennslugjald, og án þess að greitt sé hlutfallslega, eins og gert er ráð fyrir í brtt. En þegar á það er litið, að bæjarsjóður á að reka skólann með þessum hætti, þá virðist mér, að það sé jafnvel stefnt til meiri sparnaðar með því, vegna þess að ef tiltekin eru ákveðin hlutföll á milli framlaga bæjar og ríkis, þá hafi bærinn ekki sams konar hagsmuna að gæta eins og þegar hann rekur skólann á sinn kostnað og fær ákveðinn hluta á hvern nemanda úr ríkissjóði. Ég álít, að í raun og veru ætti ríkið að hafa meira með þessa byggingu að gera, það væri að mörgu leyti eðlilegra. En í frv. er það byggt á því, eins og kemur fram í 8. gr. frv., í niðurlagsorðunum, að bæjarsjóður sjái um rekstur skólans og beri ábyrgð á honum. En hins vegar er ákvæði í 9. gr. frv., þar sem sagt er, að fræðslumálastjóri ráði því algerlega, hvernig skólinn verður byggður, þannig að það er alveg útilokað, að hægt sé að byggja skóla, bæði velja stað undir hann og ákveða allt fyrirkomulag hans, nema með samkomulagi við ríkið. Ef ríkið segir: Þetta er of dýr bygging og ég legg ekki samþ. mitt til hennar, eða því þykir þetta óhentugt að einhverju leyti, þá getur það látið fræðslumálastj. neita að samþ.

Það er hér brtt., sem mér þykir ekki skipta neinu verulegu máli, um húsaleiguna, að í stað

inn fyrir að talað er í frv. um helming, eigi að greiðast 3/5. Þetta er ekki það stórt atriði, að það skipti miklu máli, — þó er ekki hægt að neita því, að húsaleigukostnaður fyrir eina stofnun getur orðið töluverður, og breytir nokkru, hvort styrkurinn er 3/5 hlutar eða ½, þegar tillagið er fyrir fyrstu nemendur 6750.00 kr., og ég álít, að tæpast sé eðlilegt fyrir ríkissjóð að greiða nema ½ húsaleigu.

Viðvíkjandi þeirri brtt., að 11. gr. frv. falli niður, get ég tekið það fram, að þessi gr. var ekki í frv. upphaflega, og að þessu leyti var frv. breytt frá því, sem frv. um húsmæðraskóla í Reykjavík var, þannig að frv. gildir um húsmæðraskóla almennt í kaupstöðum. En þá var þessi gr. sett í frv., og er ætlazt til þess, að það sé í samræmi við aðra heimild um stofnun húsmæðrakennaradeildar, sem er í l. um húsmæðrafræðslu í sveitum frá 1938, sem ætlazt var til að yrði á Laugarvatni, og ætlunin mun hafa verið að samræma þetta þannig, að þessi húsmæðrakennaradeild, ef til kæmi, ætti að sjá húsmæðrakennaraefnum fyrir menntun, og starfaði sú deild annað árið í Reykjavík við stofnanir eins og atvinnudeild háskólans, því að vitanlega, þegar lengra kemur, getur þetta orðið víðtækt og talsvert vísindalegt, og er ætlazt til þess, að kennslunni verði hagað þannig, að annað árið eða helming tímans, hvort sem skólatíminn verður langur eða stuttur, verði hún framkvæmd á Laugarvatni, þar sem nemendur fá tilsögn í að búa til mat og annast um garða og geyma garðamat o. fl. Og virðist mér þetta ekki óeðlilegt fyrirkomulag, og ég veit, að menntmn. gekk frá þessu á þessum grundvelli og taldi, að þetta fyrirkomulag væri á margan hátt hentugt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta mál, — mér virðist ekki vera mikill ágreiningur um það í sjálfu sér, svo að nokkuð sé úr honum gerandi.