26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög

Jón Ívarsson:

Herra forseti! Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir þær till., sem hún hefur tekið upp fyrir mitt kjördæmi, A.-Skaftafellssýslu, sem felst í 23. brtt. á þskj. 594, við 19. lið 16. gr. b. 1 og 2 og er fjárveiting til fyrirhleðslu í tvö allstór vötn í sýslunni. Annað vatnið, Virkisá, ógnar nú þegar engjum Svínafells í Öræfum, og óttast menn, að hún eyði þeim að mestu, ef ekki er aðgert. Hitt vatnið, Steinavötn í Suðursveit, flæðir inn á engjalönd Kálfafells og prestssetursins á Kálfafellsstað og veldur þegar miklum spjöllum.

Ég flyt á þskj. 638 þrjár brtt. við fjárlfrv., sem ég vil mæla fáein orð fyrir.

Í fyrsta lagi er þá IV. brtt. á því þskj., Öræfavegur. Þar er farið fram á hækkun úr 3 þús. í 4 þús. kr. Ég hafði upphaflega farið fram á við fjvn., að nokkuð meira yrði veitt í þessu skyni en hér er farið fram á, og vænti nú þess, að hv. Alþingi geti tekið undir þetta, vegna þess hver þörf er umbóta á vegum þarna, sem þessi vegur á að liggja um, Öræfin, og ætlast ég til, að þessi hækkun, sem ég fer fram á, fari til umbóta á vegum hjá Skaftafelli. Aðalþjóðleiðlin milli Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu liggur um Skaftafell, vestarlega í Öræfum. En eins og nú er og hefur lengi verið, má heita, að ófær vegur sé yfir Skaftafellsland. Þessa leið þarf að laga, því hún er naumast fær nema gangandi mönnum og lausríðandi. Í því skyni hef ég óskað eftir þessari 1 þús. kr. fjárveitingu í viðbót við till. fjvn.

Í öðru lagi er VII,1 á þskj. 638 við brtt. 619,IV (við 13. gr. fjárl, A. III. Brúargerðir). Sú till. er um það að bæta við aths. við liðinn um fjárveitingar til brúargerða : „og 20000 kr. til brúar á Heinabergsvötn í Austur-Skaftafellssýslu“. Hv. fyrri þm. N.-M. flytur þar till. um brúargerð á Jökulsá á Dal, og er mín till. flutt sem brtt. við hans till. Í því sambandi vil ég minna á, að ríkissjóður hefur ekki fórnað miklu fé til brúargerða í A.-Skaftafellssýslu. Einu brýrnar, sem veitt hefur verið fé til, eru: Brú á Kolgrímu fyrir sex árum, og smábrú á Laxá í Nesjum fyrir rúmum þrjátíu árum. Það munu því vera fáar sýslur, sem hafa farið eins varhluta af brúarfé og Austur-Skaftafellssýsla. Nú er svo háttað um Heinabergsvötnin, að þetta vatnsfall rennur á milli tveggja sveita, Suðursveitar og Mýra, og er hinn mesti farartálmi á milli þeirra. Yfir þetta vatn er líka þjóðvegurinn, og eru vötn þessi oft hin verstu yfirferðar og torvelda mjög leið til kaupstaðar úr heilum hreppi. Meðan Heinabergsvötnin eru óbrúuð, er ókleift að nota bifreiðar til flutninga á þessum vegum að staðaldri. En það eru mikil óþægindi, eins og samgöngumálum er nú komið, ef ekki er hægt að halda uppi flutningum með bifreiðum á þessum slóðum. Flest önnur héruð búa við svo góð samgönguskilyrði, að þau geta haldið uppi ferðum og aðdráttum allt árið með bifreiðum. . Brú á Heinabergsvötnin er því næsta nauðsynlegur þáttur í samgöngum A.-Skaftafellssýslu á landi, svo framarlega sem íbúar þeirrar sýslu eiga að búa við samgönguskilyrði á landi, sem líkjast því, sem er í öðrum héruðum, jafnvel þó þau ein sem tekin til samanburðar, sem búa við hin lakari skilyrði.

Þessi till. mín er tilraun til úrbóta á þeim samgönguerfiðleikum, sem þarna er við að stríða, tilraun til að koma því í framkvæmd, að þetta hérað sé ekki miklu verr sett en öll önnur héruð í landi okkar með brýr yfir verstu stórvötnin.

Í þriðja lagi er svo brtt. VII,2 á þskj. 638, um hafnargerð í Hornafirði, að í stað kr. 10 þús. komi 20 þús., en til vara 15 þús.

Fyrir 6–7 árum voru sett 1. um hafnargerð í Hornafirði, þar sem m. a. var ákveðið, að ríkissjóður legði fram 2/5 kostnaðar, eða allt að kr. 52 þús., gegn 3/5 kostnaðar annars staðar að. Á fjárl. 1935 og 1936 voru síðan veittar samtals 15 þús. kr. til þessa verks. Fyrir þetta fé og framlag héraðsins var svo gerður allmikill sjóvarnargarður, samkv. till. vitamálastjórnarinnar er átti að vera byrjun á sjálfri hafnargerðinni. Hefur garður þessi komið að allmiklum notum, svo langt sem hann nær. En hann er ekki nema byrjunin. Og þarf nú fyrst og fremst að gera dýpkun á leiðinni frá skipalegunni í land.

Ég fór þess upphaflega á leit við hv. fjvn., að hún veitti 37 þús. kr. í því skyni, en hún hefur ekki séð sér fært að taka upp þá till., og því er það, að ég hef farið meðalveg og farið fram á, að varið yrði 20 þús. kr. á næsta ári til hafnargerðinnar á Hornafirði.

Ég lít svo á, að ef í það væri ráðizt að fá leigt sérstaka dýpkunarskip, væri það óhjákvæmilegt að hafa svo mikið fé fyrir hendi, að unnt væri að vinna sem mest á einu ári, því það yrði bæði mjög óþægilegt og kostnaðarsamt að skipta því niður á mörg ár. Þess vegna hef ég mælzt til, að Alþingi hækkaði þessa fjárveitingu um 10 þús. kr., upp í 20 þús., því að hitt mundi koma að lakari notum, eins og ég hef bent á.

Hafnargerðir og hafnarbætur eru meðal þeirra framkvæmda, sem mest þörf er á, að ríkissjóður styðji, og hafnargerð á Hornafirði er sannarlega meðal þeirra framkvæmda, sem sízt mega undir höfuð leggjast. Bæði er það vegna samgönguörðugleika héraðsins, og þó einkum vegna þess, að staðurinn hefur allmikla þýðingu sem útgerðarstöð, ekki aðeins fyrir það hérað, sem næst er, heldur fyrir alla Austfirði.

Frá Hornafirði eru árlega gerðir út á vetrarvertíð margir Austfjarðabátar, stundum allt að 30, og er þessi hafnargerð ekki neitt einkamál A.-Skaftafellssýslu, heldur er það eigi síður mikið hagsmunamál beggja Múlasýslna, og hefur svo verið síðustu 25-30 árin, og þó í stærstum stíl nú á þessu ári.

Í þessu sambandi vil ég einnig benda á það, að A.-Skaftafellssýsla hefur ekki notið þeirra þæginda, sem því eru samfara að ná sambandi við aðalakvegakerfi landsins, og á sennilega seint eða aldrei kost að njóta þeirra samgöngubóta, sem því eru samfara að hafa bifreiðasamgöngur við aðra landshluta.

Þess vegna eru það óskir manna í þessu héraði að fá betri skilyrði til samgangna á sjó við önnur héruð heldur en enn þá eru fyrir hendi. Og vænti ég þess, að hv. fjvn. og Alþingi sýni aukinn skilning á þessu og sjái, að hér er um mikla þörf að ræða. ,

A.-Skaftafellssýsla er eitt af þeim héruðum landsins, sem á við hina mestu erfiðleika að etja um allar samgöngur á landi, vegna hinna mörgu og stóru jökulvatna, sem þar eru, og hinna miklu eyðisanda, sem aðskilja einstakar sveitir.

Þess vegna verða kröfur okkar Austur-Skaftfellinga nú og framvegis : Bættar samgöngur, brýr á fleiri stórvötn, meiri umbætur á vegum í héraðinu og auknar hafnarbætur á Hornafirði.

Vil ég svo enn láta í ljós þá ósk, að hv. Alþingi taki vel í þessar till. mínar.