29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

44. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Magnús Jónsson:

Ég er alveg sammála þeim, sem skrifað hafa hér undir nál. þetta með fyrirvara. Það er af því, að ég er sammála um, að það sé ekki nema mjög eðlilegt, að við, sem falið hefur verið umboð fyrir kaupstaði, og náttúrlega ýmsir þeir, sem hafa umboð fyrir sveitirnar líka, sem líta með sanngirni á þetta mál, álítum, að rétt sé, að bæði þessi frv., sem fyrir þinginu liggja, annað um húsmæðrafræðslu í sveitum og hitt um sama efni varðandi kaupstaðina, megi hafa samflot um afgreiðslu hér á hæstv. Alþ. Mér hefði þótt vissara, að n. hefði notað sinn meiri hl, til þess að afgr. ekki þetta mál fyrr en frv. um húsmæðrafræðslu fyrir kaupstaði hefði verið komið til þessarar d. og væntanlega þessarar sömu n. Hins vegar er vitað, að svo einstök valmenni eiga sæti hér í þessari hv. d., að það þarf ekki að beita neinu slíku harðræði, og væri nóg, ef hæstv. forseti vildi stilla svo til, að þetta mál sigldi ekki svo mjög hraðbyri, að hitt málið fengi ekki ráðrúm til þess að fylgja því eftir, sem ég fyrir mitt leyti set sem skilyrði fyrir því, að ég fylgi þessu máli hér, til þess að samræmi komist á um fjárframlög til húsmæðraskólanna í sveitum og kaupstöðum.

Þetta frv. fer fram á að breyta framlaginu til stofnunar húsmæðraskóla í sveitum úr helmingi og í 3/4 hluta stofnkostnaðar. Og mér finnst þá ómögulegt að neita því, að það er hróplegt ranglæti að styrkja ekki sams konar skóla í kaupstöðunum með því að samþ. það frv., þar sem tekið er upp það framlag, sem þykir nú óviðunandi fyrir sveitirnar.

Í grg. frv. er gerð grein fyrir því, hvers vegna farið er fram á að hækka þetta framlag í samræmi við það, sem á við um héraðsskólana. Ég get ekki séð betur en að það sama gildi í fullum mæli um framlagið til húsmæðraskólanna í kaupstöðunum. En það er tekið fram í grg. frv., að aukin verkleg kennsla í þessum skólum heimti dýrara húsrúm. Sama á við um húsmæðraskólana í kaupstöðunum, nema frekar væri, því að það er gert ráð fyrir því í sambandi við þá skóla, að þeir séu nokkurs konar kennaraskólar fyrir húsmæðrafræðsluna. Og þar sem á að kenna kennurum, má nærri geta, að það þurfi enn frekari kennslutæki heldur en við venjulega húsmæðraskóla. Í öðru lagi er það tekið fram sem ástæða fyrir því, að hækka þurfi framlagið til húsmæðraskólanna, að þeir þyrftu að geta orðið gististaðir yfir sumartímann. Þetta á engu síður við í kaupstöðunum, ekki sízt í Reykjavík. Ég álít, að ef ætti að setja upp mikið húsrúm fyrir slíka skóla, þá væri mjög hentugt, ef hægt væri að nota slíkar skólabyggingar fyrir gistihús að sumrinu. Því að alveg eins og menn leita úr kaupstöðunum upp í sveitirnar á sumrin, leita menn til Reykjavíkur á sumrin, því að á venjulegum tímum koma margir útlendingar til landsins, og mikil eftirspurn er þá eftir húsnæði fyrir ferðamenn. Stúdentagarðurinn hafði ákaflega mikinn styrk af því, að hann var svo útbúinn, að hægt var að nota hann sem gistihús fyrir ferðamenn. Þriðja ástæðan, sem færð er hér fram í grg. frv. fyrir réttmæti hækkunarinnar til skólanna, er, að nú hvíli skuldabyrðar á þeim, sem þeim væri um megn að rísa undir. Má búast við því, að það eigi ekki síður við um húsmæðraskólana í kaupstöðunum.

Ég vil leyfa mér að skjóta því til hv, n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún samræmi þessi tvö mál, þegar hitt húsmæðrafræðslumálið, fyrir kaupstaðina, kemur til þessarar hv. d.