23.04.1941
Efri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Frsm. (Þoreteinn Þorsteinsson) :

Mér þótti þessi hv. þm., sem ég man ekki heldur vel nafnið á, vera nokkuð móðmikill, þegar hann reis upp. En þar sem æðimikils misskilnings gætti í ræðu hans, verð ég að standa enn upp til þess að leiðrétta hann. Ég sagði aldrei, að það væri landbn. Nd., sem gæti komið manni í þessa n. fyrir Alþfl., heldur sameiginlegar landbúnaðar n., og ef Framsfl. vildi kjósa mann úr Alþfl., gæti hann náð á þann hátt sama tilgangi og fengist með samþykkt þessarar brtt. Mér er líka nær að halda, að hálfbróðir Alþfl. mundi ekki vilja svipta hann bróðurpartinum að þessu leyti.

Ég skal svo ekki teygja langt lopann úr þessu atriði, en vil þó minnast á eitt atriði úr ræðu hv. þm. Hann sagði, að sá Alþfl.-maður, sem starfaði í mæðiveikin., væri þar hinn leiðandi kraftur. Þetta er hin mesta fjarstæða. Hann kann að vissu leyti að vera þar hinn „talandi kraftur“, ef hann talar þar meira en hinir nefndarmennirnir, sem vel má vera, en hvað reynslu snertir og hyggindi stendur hann hinum að baki, sem von er. Hann er að mörgu leyti tillögugóður og vel greindur maður, en að hann sé þar sá leiðandi kraftur, er gaspur eitt úr hv. þm., sem engum dettur í hug að taka alvarlega. — Ég tel mig ekki þurfa að svara fleiru, og vænti þess, að frv. geti gengið óbreytt gegnum þingið.