28.05.1941
Sameinað þing: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög

*Gísli Guðmundsson:

Herra forseti! Ég veiti því athygli, að hér vantar í þingsalinn hæstv. fjmrh., hv. form. fjvn., hv. frsm. fjvn. og að ég hygg alla hv. fjvnm. Og mér virðist það nokkur galli viðkomandi þessum umr., að þessir hv. þm. skuli ekki vera viðstaddir, og vil ég geyma að halda mína ræðu, meðan svo er ástatt. (Forseti hringir til þess að kalla þm. til fundarsetu). —

Mér virðist nú að vísu heldur rýrar heimtur hjá hæstv. forseta síðan áðan. En óvíst er, eftir hverju er að bíða með að mæla hér fyrir þessum brtt., svo að ég mun ekki skorast undan að gera það nú, þó að það sé hins vegar fremur þýðingarlítið að tala yfir auðum sætum. Og sérstaklega er það leitt, að vanta skuli svo marga hér í þingsalinn, sem æskilegt væri, að heyrðu einmitt ræður þær, sem þm. flytja um þær brtt., sem fluttar eru við fjárl. Og satt að segja mætti það vekja furðu, að þeir hv. þm., sem hér er um að ræða, skuli ekki telja ástæðu til að hlýða á þær umr.

Ég á hér nokkrar brtt, við fjárlfrv., en þær eru ekki um háar upphæðir, og tvær af þeim eru aðeins heimildartill., þannig að þær brtt., sem snerta beinlínis fjárútlát á rekstrarreikningi, eru ekki háar. Ég skal að vísu viðurkenna það, að afgreiðsla fjárl. virðist nú horfa þannig, að ekki sé álitlegt að hækka útgjöldin mikið frá því, sem nú er orðið. En með tilliti til þeirra brtt., sem fram hafa komið frá ýmsum hv. þm., þá virðist mér, að þær brtt., sem ég hef leyft mér að flytja fram, séu þess eðlis, að það sé fullkomlega réttlátt, að þær komi til atkv. eins og annað, sem hér er flutt til breyt. á fjárl.

Ég vil þá fyrst aðeins drepa á, að ég á hér brtt. ásamt hv. þm. V.-Sk. á þskj. 619,I. Sú brtt. er um lítils háttar hækkun, þ. e. a. s. 100 kr., á tvo læknisvitjanastyrki, og skal ég ekki fjölyrða um það mál, en aðeins vísa til þess, sem hv. meðflm. minn hefur sagt um það.

Þá á ég hér á þskj. 654,II brtt. við 13. gr., um það, að til Öxarfjarðarheiðarvegar verði veittar af benzínskattinum 8 þús. kr. Í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir er nokkur fjárhæð veitt til vegar lagningar á Öxarfjarðarheiði, og hefur hv. fjvn. hækkað upphæðina lítið eitt eftir tilmælum frá mér, en þó engan veginn nærri því, sem ég hefði talið, að þörf væri á. Á þessari vegagerð yfir Öxarfjarðarheiði verður byrjað í sumar. Hún er til þess ætluð að koma í samband við akvegakerfi landsins Þistilfirði og Langanesi. Það er þegar orðið nokkuð bílfært í þessu héraði, og þess vegna mundi þessi vegur yfir heiðina, þegar hann kemur, koma strax að gagni. Á þessu svæði, sem hér er um að ræða, búa 900 manns. Og ég hygg, að það sé fyllilega réttmætt, að nokkuð sé gert til þess, að svo fjölmennt hérað fái samband við akvegakerfi landsins. Og þetta er fyllilega sambærilegt við það, sem gert hefur verið annars staðar. T. d. er það þannig um Vopnafjörð, að það hérað er einmitt að komast í samband við akvegakerfið uppi í Möðrudalsöræfum, og er það hérað sízt fjölmennara eða meira fyrir sér að neinu leyti heldur en þetta. Ég er síður en svo að átelja það á nokkurn hátt, að Vopnafjörður hefur fengið sitt vegarsamband, því ég tel það mjög nauðsynlegt fyrir það hérað. En ég bendi á þetta af því, að það er nærtækt dæmi til samanburðar til að sýna fram á réttmæti þessarar till. og að hér er um sanngirnismál að ræða. Í þessum sveitum, í Þistilfirði og á Langanesi, eru tvö sjávarþorp, og annað þeirra er Þórshöfn, sem er talin eign fyrir sér mjög álitlega framtíð, vegna þess að þar eru skilyrði til atvinnurekstrar bæði á sjó og landi. Mér er kunnugt um, að formaður framfærslumálan. ríkisins var á ferð síðasta sumar til þess að rannsaka skilyrði sjávarþorpa til atvinnu, og hann taldi Þórshöfn tvímælalaust einn af þeim stöðum á landinu, þar sem skilyrði eru til þess að hefja landnám í sambandi við smábátaútveg, og enda einna álitlegasta staðinn. Þetta hefur þessi maður sagt opinberlega við ýmis tækifæri. Og þessi framfærslumálan. hefur gert grein fyrir því í sambandi við frv. um landnám ríkisins, sem nú er orðið að 1. Ég vil benda á, að í þessu héraði eru ýmsir möguleikar, sem menn gætu notað sér miklu fremur en nú er hægt, ef vegasamband væri þaðan við akvegakerfi landsins. Þarna eru t. d. allálitlegar laxár, að dómi fiskiræktarráðunautsins, sem renna í Þistilfjörð. Eigendur landsins, sem þær ár renna um, geta ekki haft full not af þessum ám, vegna þess að þar vantar vegasamband við vegakerfi landsins, en veiðimenn,. sem stangarveiði stunda, veigra sér við að fara yfir heiðar með þeim gamla hætti til þess að komast að þessum ám. Ég nefni þetta sem dæmi. Og þannig er ástatt í Þistilfirðinum og á Langanesinu, að þar hefur farið fram í tvö haust rannsókn á garnaveiki í sauðfé, og víða á þessu svæði er búið að skera niður ¼ part af fé, þannig að það væri í samræmi við það, sem gert hefur verið í öðrum héruðum, þar sem líkt hefur staðið á, að heldur væri hlynnt að vegagerðum í þessu héraði, bæði til þess að menn hafi atvinnu við vegagerðirnar og líka til þess að menn geti betur hagnýtt aðra möguleika til atvinnu, sem fyrir hendi eru, heldur en sauðfjárrækt.

Vegna þess að hv. fjvn. sá sér ekki fært að leggja til hærri fjárveitingu en ég hef getið um til þessa vegar, hef ég lagt til, að þessi viðbótarupphæð yrði lögð fram af benzínskattinum. í mitt kjördæmi, N.-Þ., hefur aldrei verið lagt neitt fram til vega af benzínskatti, meðan ákvæði um hann hefur verið í gildi, þó að allmikið sé þaðan greitt af þessum skatti. Þætti mér ekki ósanngjarnt, að nú væri einu sinni brugðið út af því.

Þá á ég hér brtt. við 15. gr., um það að veita 400 kr. til lesstofu sjómannaheimilis á Raufarhöfn. Þetta er lítil upphæð, og tel ég ekki þörf á að fara um hana mörgum orðum. En það eru veittar í þessu augnamiði til annarra staða á landinu, til Siglufjarðar 1000 kr., til, lesstofu á Ísafirði 500 kr. og til hins sama í Vestmannaeyjum 500 kr. Þetta er veitt til þeirra staða, þar sem sjómenn safnast saman vissa tíma ársins. Og á Raufarhöfn safnast saman sjómenn á sumrin, og æskilegt væri, að þeir ættu sér einhvern samastað á landi, svo sem slíka lesstofu. Þetta er því ekki flutt vegna míns kjördæmis, heldur hef ég flutt þessa till. vegna þess, að ég tel ástæðu til þess að líta nokkuð á þörf þeirra manna, sem þarna safnast saman yfir sumarið, svo o,g að gera í þessu tilfelli sambærilegt við það, sem annars staðar hefur verið gert um þetta.

. Þá hef ég á þskj. 638,XII flutt brtt. um 800 kr. viðbót á framlagi til skógræktar, sem varið yrði til vegabóta í Ásbyrgi. Fyrir 2 árum fékk ég samþ. slíka upphæð til þess að bæta veginn inn eftir Ásbyrgi. Þetta fé hefur verið notað til þess, en ekki nægt. Vildi ég því nú fara fram á svolitla veitingu til þessa. Ásbyrgi er einstakur staður um fegurð og annað. En þar háttar svo til, að af þjóðveginum og inn í Byrgisbotn inn fyrir skóginn er nokkuð langur vegur. Og þessi vegur hefur verið og er enn mjög slæmur. Það tekur ótrúlega langan tíma að komast inn í Byrgið, og er það ekki erfiðleikalaust fyrir langferðamenn að þurfa að brjótast þar áfram eftir hálfófærum vegi. Og það er satt að segja ekki vansalaust, að ekki sé úr þessu bætt.

Þá á ég hér tvær brtt. við . 22. gr., þ. e. a. s. um heimildir. Hv. fjvn. hefur á þskj. 594,43 flutt brtt. um það, að Jóni Engilberts listmálara verði veitt 15 þús. kr. lán úr ríkissjóði til húsbyggingar. Þessi listamaður kom heim hingað til landsins s. 1. haust frá Petsamo, og mun nú eiga erfitt hér, og hv. fjvn. hefur því litið á hans þörf. En brtt. mín er um annan listmálara, sem kom hingað til landsins einmitt með sömu ferð í haust og er algerlega húsnæðislaus og illa staddur á margan hátt, sem er Sveinn Þórarinsson. Hann er einn af okkar betri málurum, og hefur hann fengið viðurkenningu á sínum verkum, m. a. hefur hið opinbera keypt sumt af myndum hans, og það er ekki um deilt, að hér er um góðan listamann að ræða. Kona hans er einnig málari, og þau hafa stundað sína list af mikilli kostgæfni, þannig að full ástæða er að mínum dómi til þess að veita þeim aðstoð. Ég hef þess vegna talið það sanngjarnt, að ef farið verður inn á þá braut að veita illa stæðum listamönnum einhver lán til þess að koma sér upp húsnæði, þ. . á m. vinnustofum, þá yrði einnig þessi maður slíks stuðnings aðnjótandi. Því hef ég lagt til, að brtt. hv. fjvn. orðist þannig, að heimilt sé að veita listmálurunum Jóni Engilberts og Sveini Þórarinssyni 15000 kr. lán hvorum úr ríkissjóði til húsbyggingar.

Þá er það aðeins ein brtt.; sem ég á eftir að mæla fyrir, á þskj. 619,XXXI, sem er um það að ríkisstj. verði heimilað að endurbyggja, ferðamönnum til öryggis, bæinn Hrauntanga á Öxarfjarðarheiði, ef samningar takast um framlag úr héraði til endurbyggingarinnar. Ég skal leyfa mér að fara um þetta nokkrum orðum. Bærinn Hrauntangi stendur, eins og hér er sagt, á Öxarfjarðarheiði, eða þeirri miklu afrétt og óbyggð, sem er milli Þistilfjarðar að austan og Öxarfjarðar, Núpasveitar og Melrakkasléttu. Þarna á heiðinni var fyrir löngu síðan meiri byggð, ég held einir 7–8 bæir uppi á flatlendinu. Þeir hafa smátt og smátt verið að leggjast í eyði, og nú lengi hefur þetta býli staðið eitt eftir. Það hefur verið eins konar sæluhús, og er þess full þörf, því að vegurinn er 34-35 km. milli bæja og þarna fara margir um, leitarmenn vor og haust, póstar bæði vetur og sumar, ferðafólk, m. a. stórir hópar ríðandi manna, sem koma að sækja héraðssamkomur í Axarl. firði yfir þessa löngu heiði. Margir leita þarna hælis illa á sig komnir. Ég fullyrði, að ófá mannslíf hafa bjargazt fyrir það, að þessi bær var til. Öldruð hjón búa þar og hafa búið í 30 ár. Skilyrði til búskapar eru þar ekki sérlega efnileg. Þau eiga uppkomna syni, sem hafa tekið tryggð við heiðina, en þó uggir mig, að þeir muni ekki haldast þar við, nema eitthvað sé gert til að bæta húsakynnin. Þar er lélegur torfbær; varla hæfur heimilisfólki, hvað þá til að taka móti gestum af þeim myndarskap, sem vilji er til. Ég legg til, að ríkisstj. sé heimilað að kosta nokkurri fjárhæð til að endurbyggja bæinn og að það yrði samningsmál við sýsluna, sem legði þá nokkuð af mörkum til verksins. — Ég get þess til fróðleiks, að í Hrauntanga átti eitt sinn heima um nokkur ár í æsku Jón Trausti, og ekki er vafi á því, að margt í Heiðarbýlissögum hans eru endurminningar frá þeirri dvöl. Fáir held ég óski þess, að býli, sem orðið er ódauðlegt í bókmenntum, fari í eyði af þeim ástæðum, sem hér gætu orðið til. Ég hefði gjarnan viljað tala betur fyrir þessari till., og ef hv. þm. hefðu átt kost á að koma á bæinn og tala við fólkið, mundu engin atkv. verða greidd móti henni. Ég veit, að samt muni nógu mörg atkv. verða greidd með henni til þess, að hún nái samþykki.