08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Ísleifur Högnason:

Á undanförnum þingum, þegar fjárl. hafa verið afgr., hefur verið lagt fram stjórnarfrv., sem kallað er „bandormurinn“ og felur það í sér, að fresta skuli lögum þeim, sem ákveða, að ágóðinn af tóbakseinkasölunni skuli renna til byggingar- og landnámssjóðs og sjóðs verkamannabústaða. Í hvert skipti, sem þetta frv. hefur verið lagt fram, höfum við sósíalistar greitt atkv. gegn því, og höfum við viljað, að lögin kæmu þannig til framkvæmda, að aukið væri á byggingar í sveitum og kauptúnum fyrir þetta fé. Þetta hefur engar undirtektir fengið og frv. verið samþykkt.

Nú hefur það sýnt sig, að í þessi 4 ár, sem liðin eru síðan við komum hér á þing og þingið hefur getað fallizt á að fylgja tillögum okkar í þessu efni, hefði áreiðanlega verið ráðin talsvert meiri bót á húsakynnum í sveitum og kauptúnum en nú er. Það er öllum ljóst, að eftir að stríðið skall á, hefur orðið stöðvun á því að byggja, bæði í kaupstöðum og sveitum, og ég efast ekki um, að eins og sakir standa, þá sé viðhald húsa allsendis ófullnægjandi. Allir vita, hver hætta er á því, að bæir eða bæjarhlutar kunni að verða lagðir í rústir vegna loftárása, og nú er, vegna þessarar hættu, fjöldi manns að flýja kaupstaðina í mjög þröng og lítil húsakynni sveitanna, eins og menn þekkja, sem þangað hafa komið.

Ég álít þess vegna, að hafi verið rétt að láta þessi lög koma til framkvæmda á undanförnum árum, þá sé það sjálfsagt nú, og auk þess verja öllu því fé, sem hægt er, til viðhalds og endurnýjunar húsakynna í sveitum og bæjum landsins.

Þess vegna mun ég, af framan greindum ástæðum, ekki horfa í það, þó að tekjur ríkissjóðs rýrni eitthvað, ef hægt væri með þessu fé að endurbæta húsakynni alþýðunnar í landinu. Hins vegar mun ég af framan greindum ástæðum ekki horfa í það, þótt tekjur ríkissjóðs af ágóða af tóbakseinkasölunni rýrni eitthvað, ef hægt væri með þessu fé hið allra bráðasta að endurbæta húsakost í sveitum.

Sú hækkun á framlagi ríkissjóðs úr 200 þús. kr. upp í 250 þús. kr. til þessara hluta er ekki nema lítið brot af þeim tekjum, sem sjóðurinn fengi, ef tekjur skv. tóbakseinkasölul. rynnu til hans allar eftir l., því að hæstv. fjmrh. lýsti yfir, að þær hefðu orðið 1400000 kr. s. l. ár. Ég skal ekki segja, hve mikið gert er ráð fyrir, að þessi sjóður fái mikinn hluta af tekjum tóbakseinkasölunnar og hve mikið af þeim hefði átt að renna til byggingarsjóða í kaupstöðum, ef að l. hefði verið farið. En í staðinn fyrir það á að koma aðeins 50 þús. kr. aukning á tekjum sjóðsins, sem er allt of lítið. Það má gera ráð fyrir, að með vaxandi verði á tóbaki fari einnig efni og vinna, sem þarf til bygginga, hækkandi í verði, svo að það væri full ástæða til að hafa tillagið miklu hærra en þetta.

Ég mun greiða atkv. gegn því, að brtt. þessi nái fram að ganga.