28.05.1941
Sameinað þing: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég ætla ekki að gera fjárlögin almennt að umræðuefni og ekki heldur Þær einstakar brtt., sem fyrir liggja, nema þær einar, sem ég hef sjálfur flutt eða fluttar eru að undirlagi mínu.

Fyrst vil ég nefna brtt. mína a þskj. 638, I. Fyrir mjög eindregin tilmæli fjvn. hef ég fallizt á að taka hana aftur, þótt ég telji hana sjálfur eðlilega. Ég mun síðar hreyfa því máli og vænti þess, að Alþingi fallist á þá hugsun, sem felst í till.

Þá er næst brtt. 638, XI, um að leggja fram 500 þús. kr. til að byggja sjómannaskóla, — fyrstu greiðslu. Á síðasta hausti, þegar mér þótti sýnt, að allverulegur hagnaður mundi verða á útgerðinni, en áður en sást, hve mikill hann varð, lét ég þá hugmynd í ljós, að sakir þess skattfrelsis, sem útgerðin naut að lögum, ætti hún í staðinn að leggja fram fé til byggingar sjómannaskóla, virðulegs stórhýsis, sem rúmað hefði miklu fleira en skólann og verið miðstöð menningarlífs sjómanna, og hefði þar að sjálfsögðu verið að ræða um margfalt fé við það, sem þarna er nefnt. Úr þessu varð ekki, því að það kom sem sé á daginn síðar, að arðurinn af útgerðinni . varð miklu stórfelldari en nokkur hafði gert ráð fyrir, og Alþingi tók af því þá eðlilegu ákvörðun að afnema skattfrelsið á þann hátt, sem mönnum er kunnugt, með breyt. á l. um tekju- og eignarskatt og l. um skattgreiðslur útgerðarinnar. Eftir það sneri Farmannasambandið sér til ríkisstj. — eða mín; og ég bar síðan málið undir alla stjórnina, — og fór þess á leit, að hún flytti frv. um byggingu sjómannaskóla. Málaleitunin mætti eindregnum velvilja, og það fór ekkert leynt, að stjórnin hafði frv. í undirbúningi. En áður en það kæmi opinherlega fram, báru tveir einstakir þm. í Ed. fram frv. í málinu og gerðu kröfu til fylgis allra, sem vildu málefninu vel. Það liggur nú fyrir deildinni. Ég er ekki ánægður með það frv. og tel það ekki hafa fengið nægan undirbúning, legg því til, að það verði ekki ger t að lögum, en hins vegar sýni Alþingi hug sinn til skólans með því að leggja þetta fé af mörkum 1942, árið sem betur undirbúin lög um málið ættu að geta gengið í gildi, svo snemma, að ekki tefði framkvæmdir. Ég held, að segja megi, að þessi till. njóti stuðnings allrar ríkisstj., og verði hún samþ., vil ég gefa fyrirheit um að leggja fyrir næsta Alþingi frv. í því formi, sem ég tel heppilegast fyrir framtíð stofnunarinnar og tilgang. Ég mun að sjálfsögðu sjá til þess, að leitað verði álits sjómanna í öllum stéttum, svo að frv. uppfylli óskir sem flestra aðila, að því leyti sem hægt er að taka tillit til þeirra. hað má vera, að ríkisstj. sjái sér ekki fært að verða við þeim öllum, en ég vona, að það takist svo, að ná megi samhuga fylgi um málið.

Ég álít alveg óþarft að fara að tala fögur orð í garð sjómanna, þeir fá. þau svo oft, og ég er þeirrar skoðunar, að Alþingi hafi sýnt einlægan vilja sinn í málum þeirra og muni þess vegna hljóta að samþ. þessa tillögu.

Hv. fjvn. hefur haft orð á, að sér þætti þægilegra, að þessi fjárveiting væri heimiluð á 22. gr. en veitt á 16. gr. hað er mér alveg sama um. Heimildin verður notuð, ef nokkur eyrir verður til. Óski þm. að færa till. á 22. gr., og það mun ég hafa í frammi rannsókn um, skal ekki standa á mér að flytja hana.

Þriðja brtt. mín er XXIII. liður á þskj. 638, um að heimila á 22. gr. að verja allt að 50 þús. kr. til að styrkja þá útgerðarmenn, sem misst hafa báta sína frá ófriðarbyrjun, til þess að byggja nýja báta, þó ekki yfir 20% byggingarkostnaðar. Ég veit, að hv. alþm. viðurkenna þá sanngirni, sem felst í þessari tillögu. Einstaklingar, sem orðið hafa fyrir því að missa báta sína, einmitt þegar útgerðin fór að gefa arð, eftir að vera búnir að berjast í bökkum með þá lengi, geta ekki komið þeim upp aftur án slíks stuðnings. hað er sárt til þess að vita, að þeim séu eftir óhöppin allar bjargir bannaðar. Ég vænti þess, að Alþingi geti samþ. tillöguna.

Þá hafa komið fram brtt. frá nokkrum hv. þm., sem ég verð að víkja að. Hv. 1. þm. N.-M. (PZ) hefur á þskj. 619, VII flutt brtt. við fjárveitingu á 13. gr. til hafnargerðar við sunnanverðan Faxaflóa. Hann vill binda fjárveitinguna því skilyrði, að ríkisstj. tryggi aðkomubátum aðstöðu til útgerðar frá staðnum og afnot af höfninni, með vægu verði, og leiga lóða og húsnæðis á staðnum hækki ekki vegna hafnargerðarinnar. Það yrði nú langur uppi að eltast við allar hugsanlegar verðbreytingar, sem kann beint eða óbeint að leiða af hafnarbótum á einhverjum tilteknum stað á landinu, og hefur ekki verið reynt hingað til. Ég er því mótfallinn till. eins og hún er borin fram. Ef þessi höfn yrði byggð sem landshöfn, verður þess að sjálfsögðu gætt, að bátar, sem að koma, njóti þar að mestu eins hagstæðra kjara og þeir, sem heimilisfestu eiga á staðnum. En til þess að það geti orðið, kemur til kasta Alþingis. Samkv. útreikningum hrökkva þessar 100 þús. kr. á árinu 1942 ekki langt.

Næsta brtt., VIII. á sama þskj., er um, að fjárveitingin til hafnargerðar þessarar skuli geymd, Þar til Alþingi hefur sett lög um hafnargerðina. Ég vil spyrja hv. flm., hvort þeim væri ekki sama, þótt niðurlag till. hljóðaði: „þar til lög hafa verið sett um hafnargerðina,“ — eða hvort þeir settu það fyrir sig, ef brtt. þeirra er samþ. óbreytt, þótt stjórnin framkvæmdi ákvæðið þannig að gefa út, ef svo ber undir, bráðabirgðalög um framkvæmd verksins. Fallist þeir á hið síðara, hef ég ekkert á móti því, að brtt. sé samþykkt.

Ég ætla svo ekki að gera fleiri brtt. að umtalsefni að þessu sinni.