19.03.1941
Neðri deild: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Einar Olgeirsson:

Ég vil leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi hugsað sér að gera ráðstafanir til þess, að togarar og önnur fiskflutningaskip hætti ferðum til Englands. Það er vitað, að nokkrir útgerðarmenn hafa þegar stöðvað sín skip. Hins vegar hafa nokkrir útgerðarmenn, og það jafnvel þeir sterkustu og ríkustu, haldið áfram í dag tilraunum sínum til þess að fá sjómenn til þess að sigla áfram á togurunum, þótt allmargir þeirra hafi neitað að fara. Það er því sjáanlegt, að ríkisstj. verður að grípa í taumana, því að það er ekki mögulegt fyrir þm. að fá afgr. frv. eða þál. nógu snemma á Alþ. til þess að koma í veg fyrir að þessar hættulegu siglingar haldi áfram. Mælist ég til, að hæstv. ríkisstj. skýri Alþ. frá fyrirætlunum sínum hér að lútandi. Í Reykjavík og raunar um land allt er beðið með kvíða eftir því, hvað hér, verður ofan á.

Í gær munu útgerðarmenn hafa talað við ríkisstj., en samkomulag mun ekki hafa náðst milli útgerðarmanna sjálfra. Ég vil því fyrir mitt leyti eindregið skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að fiskflutningar til Englands stöðvist nú þegar, og ef hún treystir sér ekki til þess á annan hátt, þá leiti hún til Alþ. og noti þá möguleika, sem hún hefur til þess að fá lagafrv. þess efnis samþ. án tafar.