02.05.1941
Efri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

122. mál, verkamannabústaðir

Páll Zóphóníasson:

Við 1. umr. málsins skaut ég því til n. fyrst. og fremst, að ég væri í vafa um, hvort þetta frv. bæri að samþ., en ef það ætti að ná samþykki, þá teldi ég alrangt að miða við vísitölu kauplagsnefndar, af þeirri ástæðu, að árlega er gerð hér á landi vísitala yfir byggingarkostnað. Við þá vísitölu taldi ég, að ætti að miða framlag til verkamannabústaða. Byggingarkostnaður fer ekki eingöngu eftir mannakaupi, heldur fer hann að mjög miklu leyti eftir verði á byggingarefni.

Það var verið að spyrja mig um það, hvort ég hefði athugað, hvort framlagið hefði orðið lægra eða hærra samkv. þessari vísitölu. Ég hef ekkert athugað það. Það kemur málinu heldur ekkert við. Við erum hér að tala um það, hvað sé dýrara að byggja nú en 1939, en ekki það, hvað sé dýrara að lifa. Ég álít þess vegna, að það þurfi að breyta frv. í þessa átt, og vildi skjóta því til n., hvort hún vildi ekki, að málið yrði tekið út af dagskrá, og athuga þetta nánar. Ef ekki teldist ástæða til að taka málið út af dagskrá, mundi ég reyna að koma með skriflega brtt.