19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

122. mál, verkamannabústaðir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þetta frv., sem hér er verið að ræða um, og frv., sem liggur fyrir næst á dagskrá, eru hliðstæð. Hér er í báðum tilfellum um að ræða sjóði, sem báðir eru myndaðir til að greiða fyrir lánum til bygginga til sjávar og sveita. Þeim, sem er við sjó, var ákveðið 200 þús. kr. framlag á ári, 2 kr. frá hverjum íbúa kaupstaðanna, en helmingurinn er lagður á móti af viðkomandi bæjarfélagi. Byggingar- og landnámssjóði voru ætlaðar 200 þús. kr. líka, sömuleiðis var sjóðunum ætlaðar sinn helmingur hvorum af ágóða, sem verður af tóbakseinkasölu ríkisins. — Þegar þetta mál kom frá Nd., var búið að fella niður tóbakságóðaframlagið og ákveðið, að 150 þús. skyldi fara til verkamannabústaða, en 100 þús. til byggingar- og landnámssjóðs sem viðbót við 200 þús. kr. stofnféð, og átti þetta að koma í stað ágóðans af tóbaksverzluninni. Hefur þá verkamannabústaðasjóðurinn orðið 350 þús. til útlána, en byggingar- og landnámssjóður bara 300 þús. En auk þess sem verkamannabústöðunum er þarna ætlað 50 þús. kr. meira fé til útlána, þá er lagt til, að á 200 þús. króna stofngjald þeirra sé greidd uppbót eftir vísitölu, en einskis slíks er getið í byggingar- og landnámssjóðsfrumvarpinu. Þó er viðurkennt, að þó leitað sé með logandi ljósi í kaupstöðunum, þá finnst þar ekki hús, sem búið er í, sem er annað eins greni og víða í sveitum landsins. Þess vegna bárum við fram þessar brtt., til að gera samræmi á sjóðunum, og samræmið skapast með samþykkt 1. brtt. á þskj. 541, að fella niður dýrtíðaruppbótina til verkamannabústaða.

Það er þess vegna til þess að gera samræmi á milli þeirra tveggja sjóða, eins og átti að vera, þegar þeir voru stofnaðir.

Brtt. á þskj. 541,2 tek ég aftur. Það er rangt hjá hv. 2. landsk., að hún standi á nokkurn hátt í sambandi við 1. brtt. á þessu þskj. Hún heyrir henni ekki til á neinn hátt. Það er ákvæði, sem segir um það, hve miklar tekjur hver einstakur maður megi hafa á ári til þess að geta orðið Þess aðnjótandi að koma til greina til að fá heppileg og ódýr lán til verkamannabústaða. Og ég hélt, að það hefði verið meiningin fyrir verkamönnum að sefja það lágmark þannig, að

þeir, sem hefðu mesta þörf fyrir verkamanna

bústaði, mættu koma þar fyrst til greina. En af að líta yfir framtal manna, þá sé ég, að allir verkamenn eru svo hátt uppi í tekjum 1940, að þótt bætt sé við dýrtíðaruppbótinni ofan á tekjurnar, eru þeir samt flestir útilokaðir frá því að koma þarna til greina, því að þeir hafa ekki aðeins 4 þús. kr. tekjur, sem verða með dýrtíðaruppbót 6 þús. kr., heldur sumir 10 þús. eða 12 þús. og allt upp í 14 þús. kr. tekjur. Svo við verðum að finna nýja menn til þess að geta farið inn í þessar íbúðir.

Annað ósamræmi í afgreiðslu þessara l., eins og frv. kom fram, er, að ætlazt er til, að framlagið til verkamannabústaða í kaupstöðum sé látið gilda fyrir árið 1941. Það datt engum í hug hér í hv. Ed. að sýna þá frekju að fara fram á svipað ákvæði fyrir landbúnaðinn. Ég hef þess vegna lagt til, að þetta verði fellt niður úr þessu frv. En verði það ekki samþ., mun ég koma með brtt. um, að hliðstæðu ákvæði verði hnýtt aftan við frv. um byggingar- og landnámssjóð. Ég vil láta báða þessa sjóði, sem ætlað er sama hlutverkið, að veita ódýr lán, öðrum til byggingar í kaupstöðum, en hinum í sveitum, sæta sömu meðferð á Alþ.

Ég skal svo láta laust og óbundið, hvor leiðin verður farin. Ég vildi heldur, að sú leið væri farin að fella niður dýrtíðaruppbótina og samþ. brtt. mína við málið, sem nú er á dagskrá. En sýnist meiri hl. n. að fara hina leiðina, þá liggur till. fyrir um það, að láta hitt frv., um byggingar- og landnámssjóð, fá sömu afgreiðslu sem þetta frv. kemur til með að fá, ef brtt. okkar verða felldar.