06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

1. mál, fjárlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er hér brtt. á þskj. 654, við 8. gr., sem ég tel rétt að minnast aðeins á, áður en atkvgr. fer fram.

Það stendur . til, að við kjósum næstu daga ríkisstjóra, og það þarf að sjá honum fyrir bústað. Það hefur með till., sem borin hefur verið fram, verið lagt til, að ríkisstj. fengi heimild til að kaupa húseign hér í bænum í þessu skyni. Ég vil nú leyfa mér að koma með brtt. við þessa till. Ég þykist vita, að um þetta muni vera nokkur ágreiningur hér á Alþ. og sennilega einnig í ríkisstj. Ástæðan fyrir því, að ég flyt þessa till., er sú, að ég tel það hentugt, að við fylgjum þeim sið, sem er alda gamall, þar sem þjóðirnar hafa sinn æðsta valdsmann í sínu eigin landi, að þeir búi utan við bæina. Sú venja hefur alls staðar þótt eðlileg, og þetta er af ýmsum ástæðum, sem ekki þarf að rekja hér. En sá staður, sem er fyrirhugaður með þessari brtt., .er Bessastaðir. Sá staður er svo nálægt höfuðborginni, að það er hentugt aðsetur ríkisstjórans, að mínu áliti, vegna þess að þar er þessi æðsti valdsmaður utan við ys og þys borgarlífsins, en það álít ég, að hann eigi að vera. En þetta er þó svo nærri bænum, að það kemur ekki að sök með tilliti til annarra atvika. Ég geri ráð fyrir og get reyndar upplýst það hér, að þennan stað mun vera hægt að fá keyptan fyrir sanngjarnt verð. Staðurinn var keyptur af núverandi eiganda áður en kom til verðhækkunar vegna styrjaldarinnar, og mér er það kunnugt, að seljandinn hefði getað fengið miklu hærra verð fyrir hann nokkrum dögum seinna. Og mér er óhætt að fullyrða, að ef kostur væri gefinn á þessum stað, sem mun verða gert, þá yrði hann seldur án þess að núverandi eigandi mundi vilja taka nokkurn hagnað af því.

Ég held það sé ekki eðlilegt og ekki heppilegt, að við förum að halda uppi kappræðum á Alþ., eins og blöðin hafa byrjað á, um það, hvaða staður verði valinn. Um það verður Alþ. að sjálfsögðu að mynda sér skoðun og skera úr. Og ég býst við, að menn geri þetta eins vel, þótt ekki sé á óviðeigandi hátt haldið uppi kappræðum um það. Þess vegna ætla ég ekki að rökræða Þetta mál nema sérstakt tilefni gefist til þess. En vegna þess að það er ágreiningur um þetta mál, vil ég taka það sérstaklega fram, að ég lít svo á, að ef þessi brtt. verður felld, þá sé ekki vilji fyrir því á Alþ. að hafa bústað ríkisstjórans á þessum stað, en ef till. verður samþ., lít ég á það sem úrskurð Alþ. um, að bústaðurinn eigi að vera á þessum fyrirhugaða stað. Þeir hv. alþm., sem greiða atkv. með minni till., úrskurða þar með með atkv. sínu, að bústaður ríkisstjórans skuli vera á Bessastöðum.

Viðvíkjandi fjárlfrv. almennt skal ég ekki vera margorður. Hæstv. fjmrh. mun gera grein fyrir sinni afstöðu, sem er í höfuðatriðum afstaða ríkisstj. í málinu.

Það . er ekki hægt að neita því, að þau rök, sem hv. frsm. fjvn. flutti hér um afgreiðslu fjárlfrv., eru rétt. Því verður ekki neitað, að fjárlfrv. er óvarlegt og einkennt af því varúðarleysi, sem í dag á margan hátt gegnsýrir okkar þjóðfélag.

Og vegna þess að form. fjvn. skýrði frá því, að n. hefði komið til ríkisstj. fyrir nokkrum dögum, þá get ég sagt það, að það kom ríkisstj. mjög á óvart, hvernig þessi mál stóðu. Og það er óhætt að segja það, að það er mjög mikil óánægja í ríkisstj. út af því, hvernig nú horfir um afgreiðslu þessa máls. í árferði eins og nú er má telja það meira en lítið varhugavert, ef fjárlögin verða afgr. með fyrirsjáanlegum tekjuhalla. Ég veit ekki, á hvaða ári við eigum að vinna þann halla upp. Ég vil þess vegna eindregið skora á hv. þm. að ganga ekki eins langt í því eins og stundum vill verða, þegar eins er skipað málum um ríkisstjórn og nú er, að ganga ekki úr hófi langt í því að samþ. þær brtt., sem hér liggja fyrir, en þær gera útlitið enn ískyggilegra. Það er þó nægilega ískyggilegt eins og fjvn. hefur gengið frá frv. — Um leið og ég mælti fyrir þessari brtt., vildi ég láta þessi almennu orð falla um fjárlfrv. til varúðar.