06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög

*Eiríkur Einarsson:

Ég er svo heppinn að hafa ekki lagt fram neina brtt. við þetta frv. til fjárl. Ég tel það ekki, þó að ég sé síðasti flm. einnar till. af mörgum flm. Ég hef ekki heldur tekið til máls áður og skal ekki tefja þennan fund.

Það, sem hvatti mig til að rísa úr sæti mínu, var það, að mig langar til að minnast nokkrum orðum á 18. lið 22. gr. Það er heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa hálfa jörðina Stóra-Hraun til afnota fyrir vinnuhælið. Ég get lýst því yfir, að ég mun greiða þessari till. atkv. mitt, en vildi hins vegar gera þá grein fyrir minni afstöðu, sem ég tel ekki óeðlilega.

Á síðasta þingi var samþ. ályktun, sem ég hafði borið fram, um að flytja við fyrstu hentugleika vinnuhælið á Litla-Hrauni til hentugri staðar. Þessi ályktun liggur fyrir óframkvæmd, en engu að síður vona ég, að hún verði tekin til greina. Ég greiði þessari till., sem hér liggur fyrir, atkv. mitt í trausti þess, að af hálfu ríkisstj. verði þessi jörð tekin til afnota svo lengi sem vinnuhælið verður rekið á þessum stað. En ef þar að kemur, að hælið verði flutt þaðan, þá á kaupaheimildin engu að síður rétt á sér, þar sem þörfin fyrir land handa Eyrbekkingum og Stokkseyringum er mjög brýn, til þess að eðlileg þróun í atvinnulífinu sé möguleg. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en vildi aðeins gera grein , fyrir þessari afstöðu minni. Ég taldi frá mínu sjónarmiði skjóta skökku við, að ég greiddi þegjandi atkv. með þessu.

Ég hefði haft löngun til að minnast örlítið á næsta lið á eftir, um heimild til að kaupa húseignina Fríkirkjuveg 11, en mér skildist það vera tilmæli hæstv. forsrh., að um þetta yrði ekki rætt, og skal ég taka tillit til þess. En ég vil aðeins segja það, að eftir mínum skapsmunum fannst mér till. eins og hún var góð. Ég vona, að sú gæfa fylgi málunum, að hver, sem verður ríkisstjóri hér, þá verði hann sá staðfestu- og ráðdeildarmaður, að hann gæti alls hófs, þó hann búi í skarkala höfuðstaðarins.